141. löggjafarþing — 63. fundur,  14. jan. 2013.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[11:10]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég styð þessa tillögu hv. þm. Ásmundar Einars Daðasonar, ekki vegna þess að ég beri sérstakt traust til ríkisstjórnarinnar í þessu máli heldur vegna þess að í því felst ákveðin von um að málið fari aftur í þann farveg að fagleg sjónarmið á vettvangi verkefnisstjórnar ráði á endanum niðurstöðu en ekki geðþóttaákvarðanir ráðherra eins og sú tillaga byggir á sem hér liggur fyrir frá umhverfis- og samgöngunefnd og ríkisstjórninni.

Eins og formaður Sjálfstæðisflokksins gerði grein fyrir gerðum við sjálfstæðismenn ákveðna tilraun til að færa málið úr átakafarveginum yfir í sáttafarveginn með flutningi frumvarps í haust. Það frumvarp fékkst ekki afgreitt. Þessi tillaga framsóknarmanna er í sömu átt og þess vegna styð ég hana.