141. löggjafarþing — 63. fundur,  14. jan. 2013.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[11:11]
Horfa

Atli Gíslason (U) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Við hv. þm. Lilja Mósesdóttir gerum breytingartillögur um að átta gufuaflsvirkjanir í orkunýtingarflokki fari í biðflokk til frekari rannsókna, einkum út frá umhverfislegum vandamálum sem þeim tengjast vegna meginreglunnar um að náttúran og mannfólkið njóti vafans. Þessar tillögur eru eingöngu settar fram á faglegum sjónarmiðum. Það hafa vaknað verulega áleitnar spurningar og efasemdir um sjálfbærni orkuvinnslunnar á háhitasvæðunum, um mengun grunnvatns af völdum skiljuvökva eða affallsvatns, um mjög alvarlega mengun á Stór-Reykjavíkursvæðinu, Hveragerði og Ölfusi af völdum brennisteinsvetnis og um jarðskjálftavirkni vegna niðurdælingar.

Það er gnægð af kostum til orkunýtingar þó að þessir kostir fari í biðflokk til frekari rannsóknar. Ég nefni þar röskuð svæði á Reykjanesi.