141. löggjafarþing — 63. fundur,  14. jan. 2013.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[11:18]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Ég greiði atkvæði gegn þessari tillögu. Ef maður leitast við að fylgja niðurstöðu sem kemur út úr röðun verkefnisstjórnar er ljóst að fyrsti kosturinn sem er í lið A, Stóra-Sandvík, raðast nr. 6 af sjónarhóli nýtingar en aðeins nr. 57 af sjónarhóli verndar.

Ég gæti talið upp alla kostina og menn geta skoðað þá í niðurstöðu verkefnisstjórnar. Ef menn halda því fram að þessir kostir eigi að færast niður í biðflokk þurfa menn að endurskoða skjalið allt saman í heild. Þá eru menn ekki sammála aðferðafræðinni sem að baki liggur. En það er nokkuð ljóst að það er ekki hægt að gagnrýna þingmenn fyrir að leggja fram breytingartillögur. Ég skil þingmenn vel að gera það vegna þess að það er ríkisstjórnin sjálf sem velur að víkja frá hinu faglega ferli og niðurstöðum verkefnisstjórnar. Þess vegna skil ég bara mjög vel að einstaka þingmenn leggi fram breytingartillögur við þessa áætlun ríkisstjórnarflokkanna sem augljóslega er lituð af pólitískum hagsmunum ríkisstjórnarflokkanna. (MÁ: Segir þingmaðurinn …) Má ég ekki tala? (Gripið fram í: Starfsmaður Jóhönnu.) [Hlátur í þingsal.] (Gripið fram í: Á plani.)