141. löggjafarþing — 63. fundur,  14. jan. 2013.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[11:23]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Sveifluháls er stórkostleg náttúruperla alveg við höfuðborgarsvæðið og við alþjóðaflugvöllinn okkar í Keflavík. Hver sá sem farið hefur um það svæði, hvort sem menn aka Krýsuvíkurleiðina, Vigdísarvelli eða ganga um það svæði, sem fjölmargir hafa gert, er augljóst að þetta svæði mun eyðileggjast sem heild með einni einustu virkjun eða borholu. Þar sem tillagan verður felld skora ég á þau sveitarfélög sem eiga þetta landsvæði og virkjunarrétt á þessu svæði að sameinast um það í framhaldi af rammaáætlun að svæðið verði friðað. Það er ómetanleg náttúruperla og það er algert brjálæði ef Íslendingar ætla að stimpla sig inn á heimskortið sem þvílíkir náttúrusóðar að eyðileggja svæðið. Ég styð því breytingartillöguna heils hugar.