141. löggjafarþing — 63. fundur,  14. jan. 2013.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[11:35]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt sem hér hefur komið fram að virkjunaráformin í neðri hluta Þjórsár eru með þeim hagkvæmustu sem eru í áætlunum um virkjanir. Ég nefndi áðan að rammaáætlun verður aldrei pólitískur óskalisti einstakra og hér komu fram í umræðunni sterk varúðarsjónarmið sem benda til þess að þar sem til dæmis Urriðafossvirkjun hefði áhrif á stærstu laxveiðistofna landsins þyrfti að rannsaka það betur, fá nýtt heildarmat á umhverfisáhrifum og hugsanlegum áhrifum framkvæmdanna á laxfiska í ánni.

Þetta eru varúðarsjónarmið sem okkur ber skylda til að hlusta á og fara eftir. Það eru líka mörg rök sem standa til þess að Urriðafossvirkjun fari í verndarflokk. Margir benda á rök á móti um að hinar tvær fari í nýtingu en við erum stödd þar núna að við sammælumst um að rannsaka þetta betur og setja þessa þrjá kosti í bið. Síðan ráða úrslit þar hvort það gangi eftir að til dæmis Urriðafoss fari í verndarflokk, sem mörg rök hníga að eins og ég sagði, og hinar í nýtingu en það er verkefni næstu (Forseti hringir.) mánaða að skera úr um það.