141. löggjafarþing — 63. fundur,  14. jan. 2013.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[11:36]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Holtavirkjun og Hvammsvirkjun eru staðsettar við þjóðveginn á leiðinni upp í Þjórsárdal. Það er einhver fallegasta leið sem hægt er að aka á Suðurlandi og virkjanirnar munu eyðileggja umhverfið með lónum, stíflum og raflínum. Við höfum ekki spurt okkur enn þá, ekki í dag og ekki undanfarnar vikur og mánuði: Til hvers á að virkja?

Það á að virkja bara til þess að virkja þó að það séu 100 megavött á lausu í raforkukerfinu sem enginn vill kaupa.

Það er ekkert athugavert við að þessar virkjanir fari í bið á meðan þær eru rannsakaðar betur. Það er einfaldlega skynsamlegt að þær fari í bið og verði þar. Ég hafna því alfarið að þó að búið sé að rannsaka virkjunarkosti vel sé það passi á að fara að virkja. Það þýðir heldur ekki að vísa í að það eigi eftir að fara fram umhverfismat. Það var eyðilagt sem hemill á virkjanir á sínum tíma. Það var sá hemill sem átti að nota gegn náttúruspjöllum og stjórnmálaflokkar og sérstaklega einn ráðherra á Alþingi eyðilögðu það verkfæri. (Forseti hringir.) Þess vegna verður að fara varlega á þessu stigi málsins.