141. löggjafarþing — 63. fundur,  14. jan. 2013.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[11:44]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég sagði áðan að við mundum að meginstefnu til greiða atkvæði í samræmi við niðurstöður rammaáætlunar. Í þessu tilviki týndust gögn en fundust aftur. Hæstv. ráðherrar og hv. nefnd þverskölluðust við að kanna þær niðurstöður sem þar komu fram. Það gerði aftur á móti orkuskrifstofa iðnaðarráðuneytisins og segir í umsögn hennar að í umsagnarferlinu hafi komið fram upplýsingar sem sýni fram á að ekki sé ástæða til að ætla að óvissa sé með áhrif framkvæmdarinnar á skóglendi eða hvar línulögn muni liggja vegna virkjunarinnar. Með vísan til röðunar og könnunar verkefnisstjórnar eru því rök til þess að færa Hólmsárvirkjun neðri við Atley úr biðflokki í orkunýtingarflokk þar sem fullnægjandi upplýsingar séu til staðar.

Ég vitna jafnframt til bréfs sem sveitarstjórnarmaðurinn Jóhannes frá Herjólfsstöðum sendi öllum þingmönnum þar sem hann hvetur til þess að menn skoði samfélagsleg og efnahagsleg rök ekki síður en umhverfisleg.

Virðulegi forseti. Hér er skynsamlegur kostur sem er búið að rannsaka til hlítar og ég hvet þingmenn til þess að koma einhverjum skynsamlegum framkvæmdum af stað, (Forseti hringir.) ekki síst í samfélögum sem þurfa mest á því að halda.