141. löggjafarþing — 63. fundur,  14. jan. 2013.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[11:46]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Á lokametrum vinnu verkefnisstjórnarinnar kom fram að upplýsingar sem unnið var með varðandi þennan virkjunarkost voru úreltar. Það hefði þurft að meta þennan kost upp á nýtt.

Samkvæmt lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun sem samþykkt var árið 2011 var gert ráð fyrir því að hæstv. ráðherrar fengju þetta mál í hendurnar eftir að verkefnisstjórn hefði unnið sína vinnu. Það er síðan verkefni þeirra að koma þessu til umsagnar og draga fram upplýsingar, ef nýjar berast, til að taka nýja ákvörðun.

Þessar upplýsingar voru til staðar og þess vegna hefði hæstv. ráðherrum borið að taka efnislega afstöðu til hinna nýju upplýsinga og leggja þær fyrir þingið. Þær hefðu þá augljóslega leitt til þess, eins og við sjáum af gögnunum, að þessi virkjunarflokkur hefði farið í nýtingarflokk.

Það sem verið er að gera með þessari breytingartillögu er að það er verið að fylgja þessu ferli. Það er verið að vinna í anda þess ferlis sem var mótað með lagasetningunni frá árinu 2011. Hæstv. ríkisstjórn kaus hins vegar að fara aðrar leiðir. Hæstv. ríkisstjórn var að fylgja (Forseti hringir.) sinni pólitísku sannfæringu um að fjölga kostunum í biðflokki og verndarflokki en tók ekki efnislega afstöðu til þessa máls.