141. löggjafarþing — 63. fundur,  14. jan. 2013.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[12:09]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Heildarsvipur þessarar atkvæðagreiðslu er dapurlegur og niðurstaðan er dapurleg. Það er rétt að það sem er jákvætt og gleðilegt í þessu er að hér eru margar náttúruperlur settar í verndarflokk og ég held að við séum öll meira og minna sammála því. Það hefði hins vegar verið hægt að halda áfram að reyna að ná víðtækri sátt í anda þeirrar hugmyndafræði sem rammaáætlunin átti að byggja á. En hér endar ferlið með rammpólitískri rammaáætlun ríkisstjórnar Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og Samfylkingarinnar en ekki faglega niðurstöðu faghópa.

Önnur afleiðing er sú að hér verður áframhaldandi stöðnun atvinnulífs með tilheyrandi atvinnuleysi, ekki síst í jarðverktaka- og byggingargeiranum. Sú stöðnun er á ábyrgð ríkisstjórnarflokkanna, ríkisstjórnar hæstv. forsætisráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur og hæstv. ráðherra Steingríms J. Sigfússonar og allra þeirra þingmanna þeirra flokka sem kjósa (Forseti hringir.) að greiða atkvæði samkvæmt sátt ríkisstjórnarinnar en ekki þeirri víðtæku sátt sem rammaáætlunin átti að snúast um.