141. löggjafarþing — 63. fundur,  14. jan. 2013.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[12:12]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það er miður að ekki hefur verið farið eftir þeirri tillögu sem við sjálfstæðismenn höfum lagt fram um að hið faglega mat sem okkur hefur verið birt verði lagt til grundvallar rammaáætlun þessari. (Gripið fram í.) Ef það hefði verið gert hefði það tryggt að allir hefðu þurft að beygja sig undir niðurstöðuna, allir hefðu þurft að sætta sig við að ná ekki fram sínu ýtrasta og þá hefði myndast pólitísk sátt um málið. Sú pólitíska sátt hefði getað staðið til langs tíma. En því miður var valin önnur aðferð og önnur aðferðafræði. Ég heyrði hæstv. forsætisráðherra tala um að niðurstaðan markaði tímamót. Hún markar vissulega tímamót í sögu þessarar ríkisstjórnar vegna þess að hér er um að ræða sátt á milli ríkisstjórnarflokkanna. Það mistókst að ná sátt á milli flokkanna á Alþingi, það mistókst að ná víðri og almennri sátt um verndar- og nýtingaráætlun. (Forseti hringir.) Það er verra og þýðir því miður að málið er enn þá opið. Við hljótum að harma það eftir þennan langa tíma, (Forseti hringir.) eftir það mikla starf sem unnið hefur verið sem við hefðum átt að nýta betur.