141. löggjafarþing — 64. fundur,  14. jan. 2013.

framgangur ESB-viðræðna.

[15:07]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Þegar við höfum talað um að það væri mikill hraði höfum við talað um að það væri hraði á aðlöguninni sem stjórnin hefur ekki viljað kannast við vegna þess að hún ætlaði ekki að láta eiga sér stað neina aðlögun að Evrópusambandinu fyrr en eftir að samningur hefði fengist. Við þetta höfum við gert athugasemdir. Við höfum hins vegar bent á að menn hafi verið í vandræðagangi, meira að segja með að koma saman samningsafstöðu. Eftir þessa ræðu utanríkisráðherrans verð ég að segja fyrir mitt leyti að ég hef ekki hugmynd um hvort honum finnst þetta ganga hægt eða hratt.

Það er eins og hann telji þetta í öðru orðinu ganga vel en svo viðurkennir hann í hinu orðinu að þetta gangi mjög hægt og hann vill fara í enn hægari gír. Það geta verið gild rök að vilja forða pólitískum ágreiningi í þessu landi. Menn hefðu þá átt að hugleiða það áður en lagt var af stað árið 2009 og fylgja þeirri tillögu sem við lögðum þá fram í þinginu, einmitt til að forða því að þing, þjóð og flokkar yrðu klofnir í tvennt í svo stóru grundvallarmáli sem hér er á ferðinni.

En að ráðherrann komi fram í fjölmiðlum í dag (Forseti hringir.) og fagni sérstaklega þessari niðurstöðu, segi að hún hafi verið viðbúin, sé skynsamleg, góð og málinu til framdráttar, er alveg ótrúlegt.