141. löggjafarþing — 64. fundur,  14. jan. 2013.

stefna ríkisstjórnarinnar í ESB-viðræðunum.

[15:12]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Það er rétt sem hæstv. ráðherra segir, ráðherrann hefur verið sjálfum sér samkvæmur í þessu máli undanfarin missiri. Þess vegna spyr ég: Er þetta nóg? Ætlar hæstv. ráðherra að láta staðar numið, láta þetta duga sem hæstv. ráðherra og raunar fleiri hæstv. ráðherrar Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hafa talað um að þyrfti að gerast í Evrópumálum fyrir lok þessa kjörtímabils? Nægir þetta?

Nú hefur hæstv. utanríkisráðherra upplýst um að Evrópustefna sín sé að miklu leyti komin frá Sjálfstæðisflokknum. Ætlar Vinstri hreyfingin – grænt framboð að láta þessa sjálfstæðissamfylkingarstefnu í Evrópumálum áfram ráða för út þetta kjörtímabil? Er ekki hætt við því að mati hæstv. ráðherra að fólk túlki þetta sem svo að með þessu sé bara verið að reyna að fela Evrópusambandsmálið það sem eftir er af kjörtímabilinu svo að Vinstri grænir þurfi ekki að ræða það fram að kosningum? Svo blasi við að ef þessir flokkar halda áfram í ríkisstjórn að afloknum kosningum muni þeir taka upp þráðinn að nýju. (Forseti hringir.)

Jafnframt ítreka ég spurninguna um hv. þm. Jón Bjarnason.