141. löggjafarþing — 64. fundur,  14. jan. 2013.

olíuleit á Drekasvæðinu.

[15:15]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Fyrr í þessum mánuði skrifaði hæstv. ráðherra Steingrímur J. Sigfússon undir samning um sérleyfi til rannsókna og vinnslu á kolvetni, olíuleit á Drekasvæði. Blekið var varla þornað á pappírunum þegar hæstv. ráðherra fór að draga í land, svo að vægt sé til orða tekið, um það hvaða leyfi væri verið að veita þarna, hvort það væri til rannsókna eða til tilraunaborana og vinnslu á Drekasvæðinu. Það vill svo til að þetta er ekki neitt óskýrt vegna þess að í tilkynningu frá Orkustofnun og bréfi sem er undirritað af Guðna A. Jóhannessyni orkumálastjóra segir, með leyfi forseta:

„… veitir Orkustofnun hér með sérleyfi til rannsókna og vinnslu kolvetnis innan þess svæðis sem tilgreint er í 2. kafla fylgiskjals“ — og svo framvegis.

Hæstv. menntamálaráðherra og varaformaður Vinstri grænna lætur hafa eftir sér að nú sé kominn tími til að taka þetta mál til alvarlegrar umræðu innan Vinstri grænna. Hæstv. menntamálaráðherra segir, með leyfi forseta:

„Nú þegar það lítur út fyrir að það gæti orðið einhver alvara úr þessu er full ástæða til þess að staldra við og ræða það inni í flokknum. Þetta mál hefur lengi verið í undirbúningi, til dæmis vegna hinnar skattalegu umgjarðar.“

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra: Er ekki fullseint að taka umræðuna innan flokksins núna um hvort leyfa eigi olíuvinnslu á Drekasvæðinu? Ef olía finnst er það alveg skýrt samkvæmt þeim samningi sem hæstv. atvinnuvegaráðherra skrifaði undir að þau fyrirtæki sem um ræðir fá leyfi til vinnslu þar. Orkumálastjóri hefur jafnvel látið þess getið að um skaðabótaskyldu gæti verið að ræða af hálfu íslenskra stjórnvalda ef farið yrði á svig við samninginn. Því spyr ég hæstv. ráðherra: Er ekki fullseint í rassinn gripið? (Forseti hringir.) Ætla Vinstri grænir að fara að taka umræðuna núna eftir að búið er að skrifa undir samninginn?