141. löggjafarþing — 64. fundur,  14. jan. 2013.

olíuleit á Drekasvæðinu.

[15:21]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég held að það fari betur á því að hæstv. atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra skýri nákvæmlega hvað felst í samningnum. (Gripið fram í.) Ég tel að það sé alveg kristaltært að þeir samningar standa og eins og hv. þingmenn átta sig algjörlega á þá ber sá ráðherra ábyrgð á því sem hann skrifar undir og ég tel enga ástæðu til að ætla annað en að svo sé.

Ég hef enga ástæðu til að ætla að það sé eitthvað hættulegt að ræða þessi mál. Ég hefði talið að það væri mjög æskilegt að ræða þessi mál á Alþingi. Eins og kom fram hér áðan (Gripið fram í.) þá hefur Vinstri hreyfingin – grænt framboð ekki tekið kategóríska afstöðu gegn olíuvinnslu. Við teljum og leggjum á það mikla áherslu annars vegar að ýtrustu varúðarsjónarmiða sé gætt við bæði rannsóknir og vinnslu og hins vegar teljum við eðlilegt að þessi vinnsla sé sett í samhengi við þær skuldbindingar sem við höfum tekið á okkur í alþjóðlegum loftslagsmálum. Ég tel ekkert óeðlilegt að við ræðum það. Það hefur ekkert að gera með það að samningar standi ekki. Það er engin ástæða til að ætla það. Þeir standa að sjálfsögðu.