141. löggjafarþing — 64. fundur,  14. jan. 2013.

stefna ríkisstjórnarinnar í ESB-viðræðunum.

[15:22]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég hef hug á því að heyra aðeins meira í hæstv. utanríkisráðherra um hringlandaferð Evrópusambandsviðræðna sem er enn að taka á sig nýja mynd hjá ríkisstjórninni. Lengi vel var það bara Vinstri hreyfingin – grænt framboð sem snerist eins og vindhani í þessu máli í þingsal en nú virðist mér sem hæstv. utanríkisráðherra sveiflist eitthvað þegar kemur að því að taka ákvarðanir, móta eða fylgja eftir stefnu er varðar þessa umsókn. Ég veit ekki betur en að fyrst hafi verið markmiðið að klára þessar viðræður á 18 mánuðum, að það hafi verið upphafleg áætlun ríkisstjórnarinnar. Síðan sögðu menn og sungu það yfir okkur hér í þingsal að þetta gengi allt svo vel að viðræðurnar væru á fullu gasi o.s.frv. Ég man ekki betur en að það hafi verið síðast í desember á ráðstefnu úti í Brussel eða einhvers staðar sem hæstv. ráðherra lýsti því yfir að glæsilegur gangur væri í þeim viðræðum sem væru hafnar. Staðreyndin er vitanlega sú að það er búið að loka líklega 11 af 30 og eitthvað köflum, allir hinir standa opnir eða ekki er byrjað að ræða þá. Það er allur gangurinn sem er búinn að vera í þessum viðræðum.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort það skjóti ekki skökku við, í ljósi fyrri yfirlýsinga, að lýsa því yfir að nú beri að leggja viðræðurnar á ís fram yfir kosningar. Hvað svo? Hvað á að gerast eftir kosningar? Er ráðherra í rauninni ekki að segja að hann sé sammála þeirri tillögu sem við lögðum fram nokkrir í utanríkismálanefnd um að leggja bæri viðræðurnar á ís og leyfa síðan íslenskri þjóð að taka ákvörðun um hvort þeim yrði haldið áfram? Það hlýtur að vera meginniðurstaðan eftir þann málflutning sem hefur verið viðhafður eftir ákvörðun ríkisstjórnarinnar í morgun.

Mig langar líka að spyrja hæstv. ráðherra: Hvað varð til þess að ráðherrann skipti um skoðun eftir að hafa sagt að gangurinn væri svo glæsilegur að þetta væri allt að koma hjá okkur? Hvað var það? Er eitthvað eitt sem varð til þess? Getur verið að Evrópusambandið sé búið að setja niður hælana og segja: Það verður ekki haldið áfram nema á Íslandi sé almennur stuðningur meðal stjórnmálaaflanna við viðræðuferlið og hvernig eigi að ljúka því? (Forseti hringir.)