141. löggjafarþing — 64. fundur,  14. jan. 2013.

stefna ríkisstjórnarinnar í ESB-viðræðunum.

[15:27]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Hv. þingmanni hefur tekist að gera dag minn litríkari en ella. Hann hefur sagst vera glaður yfir orðum mínum. Hann er yfir sig hrifinn af því að utanríkisráðherra flýgur áfram þeim fjöðrum væddum sem honum voru í upphafi gefnar. Afstaða mín í þessu máli er algjörlega klár. Ég hef líka sagt, meðal annars hér í dag, að ég telji það málinu til farsældar að við reynum að hafa það ekki sem bitbein í kosningum. Það mun koma að því að kosningar verða og síðan tekur ný ríkisstjórn við, hver sem hún verður, og hún verður að hafa ráðrúm. Ég tel til dæmis lýðræðislegt af okkar hálfu að búa svo um þetta mál að ný ríkisstjórn geti sett sitt mark, ekki bara á framvindu málsins heldur sérstaklega á samningsafstöðurnar í þeim tveimur málaflokkum sem eru langmikilvægastir. (Gripið fram í: … rammaáætlun?) (Gripið fram í.) Að vísu stendur hér upphafsmaður rammaáætlunar og sömuleiðis þeirrar áætlunar sem við erum nú að ræða. Um þær get ég sagt að þær hafa það sameiginlegt að báðar eru mjög rammar að vöxtum og þunga.