141. löggjafarþing — 64. fundur,  14. jan. 2013.

viðbrögð lögreglu við ásökunum um barnaníð.

[15:29]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Mig langar að beina fyrirspurn til hæstv. innanríkisráðherra varðandi þau mál sem verið hafa til umfjöllunar í fjölmiðlum að undanförnu varðandi barnaníðinga og viðbrögð lögreglu við þeim málum. Komið hefur fram að menn hafa bent á að lögreglan hafi setið með játningar, að vísu á ólöglegum upptökum, í tvær til allt að fjórar vikur án þess að bregðast við. Hún brást svo ekki við fyrr en Kastljósþátturinn frægi fór í loftið.

Því beini ég þeim spurningum til hæstv. innanríkisráðherra hvort hann viti hvers vegna lögreglan gerði ekkert í þessum málum fyrr. Hver eru viðbrögð lögreglu almennt við ásökunum um svona alvarleg mál og hvað telur hæstv. ráðherra að þetta þýði fyrir traust á lögreglu í kjölfarið?

Komið hefur fram annað mál þar sem lögreglumaður var ákærður og var ekki vikið úr starfi á meðan málið var rannsakað. Lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins sem og ríkislögreglustjóri vísuðu málinu sín á milli og neituðu að taka á því. Hver eru hefðbundin vinnubrögð á milli þessara embætta í svona málum? Þetta eru grafalvarleg mál og fórnarlömb þessara mála glíma oft við afleiðingar þeirra alla ævi. Þetta eru mikilvægustu embætti landsins þegar kemur að öryggi borgaranna og það hlýtur að þurfa að skerpa á vinnubrögðum í slíkum málum ef það er rétt sem fram hefur komið að lögreglan hafi brugðist svona við. Því spyr ég ráðherra: Hvað hyggst hann gera í þessum málum í kjölfarið?