141. löggjafarþing — 64. fundur,  14. jan. 2013.

viðbrögð lögreglu við ásökunum um barnaníð.

[15:31]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður spyr hvort ég viti hvers vegna lögreglan brást ekki fyrr við gagnvart þeim tilteknu aðilum sem verið hafa til umfjöllunar í fjölmiðlum undanfarna daga. Ég get ekki svarað því en segi þó að öllu máli skiptir að nú hefur verið brugðist við. Kannski er stóra spurningin sem við stöndum frammi fyrir sem samfélag og allar stofnanir þess, ekki aðeins lögreglan heldur einnig réttarkerfið, skólakerfið, stjórnmálin og stjórnsýslan, hafa ekki brugðist fyrr við í málum af þessu tagi.

Ég hef vakið athygli á því að við þurfum ekki að fara ýkja langt aftur í tímann, bara 20–30 ár, til að sjá að engin umræða var um mál af þessu tagi. Það sem þó er að gerast nú og er til góðs er að samfélagið er almennt að opna augu sín gagnvart þessum vanda og það á við um allar stofnanir samfélagsins.

Hv. þingmaður víkur sérstaklega að ásökunum og kærumálum sem upp hafa komið innan lögreglunnar og tengjast málum af þessu tagi, hvernig ráðuneytið og ég sem innanríkisráðherra hyggist taka á slíku. Ég tel að það skorti á verklagsreglur innan lögreglunnar um hvernig taka skuli á slíkum málum. Þegar ásakanir koma upp og rannsókn er í gangi er ég sammála hv. þingmanni um að það þurfi með einhverjum hætti að bregðast við. (Forseti hringir.) En lögregluna skortir þarna verklagsreglur og ég hef ákveðið að skipa starfshóp sem smíði slíkar reglur.