141. löggjafarþing — 64. fundur,  14. jan. 2013.

málstefna í sveitarfélögum.

74. mál
[15:37]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Þessi fyrirspurn hefur legið hér án þess að vera svarað í nokkurn tíma, ég tek það fram vegna þess að það er ekki aðeins ráðherranum að kenna heldur eigum við báðir okkar sök á því, fyrst tafðist svarið og síðan tafðist spyrjandinn við að taka við svarinu.

Hér er spurt um málstefnu sveitarfélaga sem kveðið var á um í sveitarstjórnarlögunum sem sett voru árið 2011. Þá var sett ákvæði um málstefnu í sveitarstjórnarlögin, sem þá var verið að endurskoða og afgreiða, og einnig í stjórnarráðslögin. Ég spyr ósköp einfaldlega um hvað líði starfi að því í sveitarfélögunum og hvað hafi verið gert af hálfu innanríkisráðherra og starfsmanna hans í hans ágæta ráðuneyti til þess að koma því áfram.

Ég vil taka fram að forsætisráðherra svaraði hliðstæðri spurningu um Stjórnarráðið í haust og gerði það nokkuð vel. Þar hefur verið mörkuð vönduð málstefna. Þar liggur undir bæði stefnumótun og markmið sem menn hafa sett sér og líka ákveðin aðgerðaáætlun, eins og er í tísku að tala um núna. Það á að skipa málnefnd og fara í ýmsar aðgerðir til að bæta málstefnu í Stjórnarráðinu, bæði íslenskuna og þá málstefnu sem felst í því að þjónusta fólk sem á annað móðurmál en íslensku en er samt íslenskir ríkisborgarar eða á samskipti við þetta samfélag og stjórnvöld þess.

Ég vonast til að það geti orðið fyrirmynd að málstefnu í sveitarfélögunum en bíð á meðan spenntur eftir að heyra hvað hæstv. ráðherra hefur um málið að segja.