141. löggjafarþing — 64. fundur,  14. jan. 2013.

málstefna í sveitarfélögum.

74. mál
[15:43]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Það er dauflegt til þess að vita að aðeins 24 sveitarfélög af 75, ekki einu sinni þriðjungur þeirra, láta svo lítið að svara erindi ráðherrans um þetta og auðvitað getur maður ekki haft hér í frammi mikinn fögnuð yfir því að ekkert jákvætt svar barst. Ég átti nú kannski ekki von á því að uppskeran yrði mjög ríkuleg en það hryggir mig nokkuð að hún skuli hafa orðið svona daufleg.

Ég tek undir það með hæstv. ráðherra að það var jákvætt og hrósvert að senda þetta bréf í framhaldi af fyrirspurninni þó að það ekki yrði fyrr sent. Að minnsta kosti hefur þá athygli sveitarstjórnarmanna verið vakin á þessum kafla í lögunum. Auðvitað eru engin viðurlög þar og engin lögregla sem send er á sveitarfélögin ef þau vanrækja þessa skyldu. Ætlast er til þess að íbúarnir fylgist með en það er líka ætlast til þess að innanríkisráðherra og Íslensk málnefnd hafi hönd í bagga þó að það standi ekki í lögunum. Ég vil hvetja ráðherrann til þess annars vegar að vekja athygli sveitarfélaganna í framhaldinu á því að málstefna Stjórnarráðs Íslands hefur verið mótuð, að ríkisvaldið hefur staðið sig, staðið sína plikt. Hægt er að nota málstefnu Stjórnarráðsins sem fyrirmynd í málstefnu einstakra sveitarfélaga. Hins vegar vil ég hvetja ráðherrann til að hafa samband við Íslenska málnefnd og athuga hvort ráðuneytið og Íslensk málnefnd geti ekki í sameiningu og með litlum tilkostnaði útbúið einhvers konar skapalón sem hægt væri að beina til sveitarfélaganna að fylla út eftir sínu höfði í þessu efni.