141. löggjafarþing — 64. fundur,  14. jan. 2013.

innanlandsflug.

370. mál
[15:46]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Ég beini hér fyrirspurn til hæstv. innanríkisráðherra um málefni innanlandsflugsins. Þessi fyrirspurn var borin fram í haust við þær aðstæður að um það varð umræða í fjölmiðlum og yfirlýsingar gefnar um að til stæði jafnvel að hætta flugi á einstaka staði sem hafa notið styrks. Ríkisvaldið þótti ekki hafa sett nægt fé til að hægt væri að standa við samninga um flug, t.d. á Bíldudal, Gjögur, Höfn í Hornafirði eða þá staði sem eru þannig að ríkisstuðning þarf til að halda uppi eðlilegum samgöngum. Umræðan hefur síðan haldið áfram. Við afgreiðslu fjárlaga fyrir jólin var einmitt tekist á um það við 3. umr. hvort veitt yrði nægilegt fé til að hægt væri að halda uppi eðlilegu áætlunarflugi til þessara staða. Eitthvað fékkst þá til viðbótar við afgreiðslu þingsins.

Það sem er hins vegar dapurlegt er að við skulum við afgreiðslu fjárlaga á síðustu dögum þings hafa þurft að takast á um 10, 20, 30, 40 eða 50 milljónir sem þarf til viðbótar til að halda uppi áætlunarflugi til þessara staða. Mér finnst það ekki boðlegt, hvorki gagnvart þinginu né fólkinu sem býr þarna. Þetta er sú staðreynd sem við höfum búið við. Ég veit að hæstv. innanríkisráðherra hefur beitt sér eins og hann hefur mátt í þeim efnum.

Ég spyr ítrekað: Hver er staðan núna varðandi áætlunarflugið til þeirra staða sem hafa fengið stuðning, til Gjögurs, Hafnar í Hornafirði og Bíldudals? Ég vil svo líka nefna Sauðárkrók sem var felldur niður af áætlunarflugi á síðasta ári. Það var talið að nægilegt fé hefði verið veitt og um það rætt í þingsölum til að það flug mætti halda áfram, en svo varð það ekki.

Hvað líður Sauðárkróksfluginu sem miklar væntingar hafa verið bundnar við?

Frú forseti. Það er ekki ódýrt fyrir íbúa, hvort sem er á Gjögri, Bíldudal eða Höfn í Hornafirði, að taka flug. Ætli það kosti ekki 15–16 þús. kr. farið aðra leiðina fyrir fólk sem tímunum saman langan tíma vetrar á kannski ekki aðra möguleika en að fara með flugi?

Ég vil að það sé fullkomlega tryggt að það verði haldið öruggu og góðu áætlunarflugi á þessa staði. Það á í sjálfu sér (Forseti hringir.) ekki að vera umræðuefni, en ég vil samt spyrja hér hæstv. ráðherra, (Forseti hringir.) frú forseti, eins og ég hef gert.