141. löggjafarþing — 64. fundur,  14. jan. 2013.

innanlandsflug.

370. mál
[15:55]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa umræðu en vek athygli á öðru. Það sem er að gerast í innanlandsfluginu lýtur ekki bara að ríkisstyrkta hlutanum heldur líka hinu almenna innanlandsflugi í landinu. Sú staða er uppi að það er eins og verið sé að reyna að murka lífið úr þessu flugi. Við sjáum að þetta hefur birst þannig að hér hefur stóraukist kostnaður vegna eldsneytis. Erlend aðföng hafa hækkað mjög í verði. Ofan á þetta hefur síðan komið sú stefna ríkisstjórnarinnar að leggja sérstakan skatt á innanlandsflugið sem hefur haft þau áhrif að rekstrarstaða þessara fyrirtækja versnar og þau hafa neyðst til þess að hækka flugfargjöldin. Það hefur aftur á móti gert það að verkum að það er orðið erfiðara fyrir allan almenning að nýta sér þessa þjónustu og það á jafnt við um ríkisstyrkta flugið og hið almenna innanlandsflug. Ég held þess vegna að það þurfi að kalla eftir því að hæstv. ríkisstjórn endurmeti afstöðu sína til flugsins og sérstaklega skattlagningarinnar. Það hefur hún þó á valdi sínu.

Varðandi ríkisstyrkta flugið er síðan alveg ljóst að það var tefldur ákveðinn biðleikur fyrir áramótin, en framtíðin er hins vegar því miður mjög óljós. Ég hvet hæstv. innanríkisráðherra (Forseti hringir.) sem ég veit að hefur bæði skilning og áhuga á þessu máli að beita sér fyrir því með styrk okkar annarra þingmanna að tryggja til frambúðar innanlandsflugið, (Forseti hringir.) bæði á almenna sviðinu og líka því ríkisstyrkta.