141. löggjafarþing — 64. fundur,  14. jan. 2013.

hlutverk ofanflóðasjóðs.

285. mál
[16:02]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Ofanflóðasjóður var stofnaður sem viðbragð við miklum áföllum fyrir vestan á 10. áratugnum eins og allir vita. Í sjóðinn kemur skattfé frá fasteignaeigendum í landinu sem eru auðvitað bæði fyrirtæki og þorri almennings. Nú er staðan þannig að brýnustu verkefni sjóðsins eru komin í gagnið. Það er auðvitað ýmislegt eftir sem hægt er að telja upp, hægt er að búa til langa verkefnalista ef mönnum þykir ástæða til. Ég tel að kominn sé tími til að skoða framtíð sjóðsins og þeirra fjármuna sem þar eru, sem eru um 10 milljarðar, sem er fé sem við tínum nú ekki upp af götunni í öðrum efnum.

Ég veit að það fé er að sumu leyti bundið í sjóðnum af ýmsum orsökum, fyrst vegna heldur ánægjulegra viðburða í hagkerfinu og síðan vegna heldur verri viðburða í hagkerfinu. Á þinginu í fyrra var ákveðið að veita úr sjóðnum til annarra verkefna en þeirra sem hann er kenndur við þegar ákveðið var að styrkja eldstöðvarannsóknir úr sjóðnum til þriggja ára. Þá er á það að minnast að í umhverfis- og samgöngunefnd var frumvarpi breytt, gerð var tillaga sem var að lokum samþykkt um breytingar á frumvarpi í þessu efni frá hæstv. ráðherra sem gerði ráð fyrir lengri tíma. Þær breytingar voru lagðar til til þess að tryggt væri að hlutverk sjóðsins yrði endurskoðað og því beint til hæstv. ráðherra að annast þá endurskoðun.

Ég og ýmsir sem ég hef heyrt í teljum það raunhæft og sjálfsagt að breyta eðli sjóðsins eftir vel unnið starf, í að vera miklu almennara þannig að sjóðurinn verði hamfarasjóður eða almennur almannavarnasjóður. Hann sinni margvíslegum verkefnum, haldi áfram með þau verkefni sem hann sér um nú, hvort sem þau eru í c-, b-, eða a-deild, en taki líka á öðrum hamfara- og almannaverkefnum alls staðar á landinu, bæði þar sem byggðir eru taldar dreifðar en líka þar sem mest er af mannfólkinu sem til stendur að vernda og verja, þar á meðal á höfuðborgarsvæðinu, þar sem augu hafa opnast undanfarið fyrir ýmiss konar vá sem menn töldu ekki mikla áður. Ég spyr hæstv. ráðherra þess vegna tveggja spurninga sem ég veit að ég fæ góð og ljúf svör við á eftir.