141. löggjafarþing — 64. fundur,  14. jan. 2013.

hlutverk ofanflóðasjóðs.

285. mál
[16:05]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnirnar. Það er auðvitað mikilvægt að ræða stöðu ofanflóðasjóðs og framvindu mála þar, ekki síst vegna þess hversu umfangsmikið verkefnið er og fjármunirnir miklir. Eins og fram hefur komið voru gerðar verulegar breytingar á sjóðnum og opinberri stjórnsýslu ofanflóðavarna 1996 þegar ákveðið var að ríkissjóður mundi veita sveitarfélögum sem byggju við snjóflóðahættu á íbúðasvæðum fjárhagslegan stuðning til að tryggja öryggi þéttrar byggðar í sveitarfélögum gagnvart ofanflóðum.

Ofanflóðanefnd var jafnframt falið að hafa eftirlit með framkvæmd verksins og tryggja að framkvæmdir sveitarfélaganna sem sjóðurinn styrkti veittu ásættanlegt öryggi. Í upphafi var ljóst að verkefnið var afar umfangsmikið og mundi taka langan tíma og var nauðsynlegt að endurmeta hættu á öllum svæðunum áður en hægt væri að hefja skipulegar framkvæmdir við varanlegar varnir á einstökum svæðum. Sem bráðaaðgerð var strax unnið bráðabirgðahættumat og rýmingaráætlanir fyrir öll sveitarfélögin sem í hlut áttu og einnig var strax í upphafi komið upp á vegum Veðurstofu Íslands skipulegri vöktun á snjóflóðahættusvæðum við byggð til að bregðast við hættuástandi á meðan ekki hefðu verið byggðar varanlegar varnir. Sú starfsemi hefur gengið vel og hafa engin mannskæð slys orðið af völdum snjóflóða í byggð á þessu tímabili.

Reglugerð um hættumat vegna ofanflóða og flokkun og nýtingu hættusvæða kveður á um að framkvæmdum við brýnustu varnaraðgerðir gegn ofanflóðum fyrir svonefnd svæði c, samkvæmt hættumati, verði lokið eigi síðar en 2020. Til þess að svo geti orðið er áætlað að verja þurfi um 2 milljörðum króna árlega til verkefnisins, en mjög gróflega áætlaður heildarkostnaður við að ljúka gerð snjóflóðavarna samkvæmt þeirri áætlun sem unnin var 1995 í kjölfar snjóflóðahamfaranna í Súðavík og á Flateyri er talinn liggja á bilinu 14 til 17 milljarðar króna. Höfuðstóll ofanflóðasjóðs í árslok 2011 var tæpir 10 milljarðar króna, eins og fram hefur komið, og er þar af bundið eigið fé um 8,5 milljarðar.

Að mínu áliti kemur vel til greina, þegar fer að sjá fyrir endann á þeim verkefnum sem ofanflóðasjóður hefur verið að sinna, að hlutverk hans verði aukið til að sinna verkefnum varðandi forvarnir gegn náttúruvá almennt, þar með talið vinnslu hættumats fyrir allar tegundir náttúruvár og þá undir nýju nafni. Í því sambandi má minna á að Alþingi samþykkti fyrr á síðasta ári heimild til að ofanflóðasjóður gæti lagt allt að 35 milljónir króna á ári næstu þrjú árin til að styrkja úttekt á mögulegri eldgosahættu og mat á áhrifum eldgosa. Það kom fram í máli hv. þingmanns.

Sú breyting hefur ekki mikil áhrif á hin lögskipuðu verkefni ofanflóðasjóðs sem eru mjög kostnaðarsöm eins og hér hefur komið fram. Var talið rétt að gera þetta nú vegna þess að Veðurstofu Íslands hafði verið falið af Alþjóðaflugmálastofnuninni að vinna úttekt á mögulegum áhrifum íslenskra eldfjalla á alþjóðlegt flug. Það væri þar með mjög eðlilegt við þessar aðstæður að víkka verkefnið út og skoða um leið möguleg áhrif á íslenskt samfélag.

Það er eitt af hlutverkum umhverfis- og auðlindaráðuneytisins að vakta náttúruvá og veita Almannavörnum upplýsingar um mögulega hættu og þar af leiðandi er aukin áhersla í ráðuneytinu á að efla þá forvarnastarfsemi. Mér finnst koma mjög sterklega til álita þegar við förum að sjá fyrir endann á þessum snjóflóðaverkefnum að við skoðum í alvöru útvíkkun á forvarnahlutverki ofanflóðasjóðs.

Sjóðurinn kostaði gerð varanlegs hættumats fyrir sveitarfélögin sem bjuggu við snjóflóðahættu í byggð og er nú unnið að því að ljúka hættumati fyrir öll skíðasvæði landsins og grófu mati á hættu í dreifbýli. Það mætti hugsa sér hið útvíkkaða hlutverk þannig að það tæki til vinnslu alls hættumats vegna náttúruvár í framtíðinni. Ég legg þó áherslu á að vegna þeirrar umræðu sem verið hefur um stofnun bótasjóðs vegna tjóna sem verða af völdum náttúruvár sem aðrar tryggingar greiða ekki, að ekki er rétt að blanda saman forvarnasjóði og bótasjóði. Það er að mínum dómi óheppilegt fyrirkomulag að sami sjóður hafi bæði það hlutverk að sinna forvörnum og greiða bætur vegna hamfaratjóna. Ég tel eðlilegra að skoða stofnun sérstaks sjóðs sem hefði það hlutverk að greiða bætur vegna náttúruhamfara sem ekki fást bættar úr vátryggingum, en slíkar bætur hafa hingað til að mestu leyti komið með sérstakri ráðstöfun á fjárlögum eða fjáraukalögum.

Vegna spurningar hv. þingmanns um hvort hafin sé sérstök vinna í ráðuneytinu að því er varðar endurskoðun löggjafar er því til að svara að hún er ekki hafin en það mun auðvitað koma að því eftir því sem verklok á snjóflóðavörnum sveitarfélaganna nálgast, auk þess sem skoða þarf áframhald á stuðningi sjóðsins við eldgosahættumat, sem tekur nú aðeins til þriggja ára og lýkur þar með í árslok 2014.