141. löggjafarþing — 65. fundur,  15. jan. 2013.

störf þingsins.

[13:33]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Frá því er skemmst að segja að það sem hefur farið skriflegt til Feneyjanefndarinnar er bréf sem er undirritað af mér sem formanni stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar þann 16. nóvember þar sem Feneyjanefndin er beðin að fara yfir tillögur að nýju frumvarpi um nýja stjórnarskrá. Þar er sérstaklega minnst á að það verði skoðað hvernig þetta frumvarp gengur upp gagnvart stofnunum lýðveldisins, þ.e. þingsins, ríkisstjórnar og forsetans. Auk þess er beðið um að litið sé á kosningafyrirkomulagið.

Þegar ég fór á fund þessarar merku nefndar afhenti ég tillögurnar að frumvarpinu með skýringum. Ég var ekki sérstaklega með tillögur hv. þm. Péturs Blöndals. Ég hafði reyndar átt von á að það yrði gengið eftir því frekar en var í orðaskiptum okkar í þessum ræðustól ef ég ætti að fara með þær. Ég gerði það sem sagt ekki, en það breytir því ekki að nú er undirnefnd frá þessari stóru nefnd að koma hingað til lands og verður hér á fimmtudaginn og fyrir hádegi á föstudaginn og hittir alls konar fólk frá hinum ýmsu stofnunum. Sjálfstæðisflokkurinn á tíma milli 11.40 og 12.00 á föstudeginum og ég tel sjálfsagt að þau komi þessu þá á framfæri. Við getum líka minnst á það í nefndinni. Nefndin hittir þau svo sem hvert í sínu lagi. Meiri hluti nefndarinnar hittir nefndina sér og svo minni hlutinn. (Forseti hringir.)

Það er auðveldasti hlutur í heimi að koma þessu á framfæri, en ég fór ekki sérstaklega með þetta skriflegt, (Forseti hringir.) og í máli mínu við nefndina ræddi ég þetta allt saman í mjög grófum dráttum þannig að þessi (Forseti hringir.) einstaka tillaga hefur ekki komið fyrir augu Feneyjanefndarinnar.

(Forseti (ÁRJ): Forseti minnir á að ræðutíminn er tvær mínútur og biður hv. þingmenn um að virða hann.)