141. löggjafarþing — 65. fundur,  15. jan. 2013.

störf þingsins.

[13:45]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Nokkuð hefur verið rætt um þá ákvörðun sem kunngjörð var í gær, að ríkisstjórnin hefur ákveðið að hægja tímabundið á hluta af aðildarviðræðunum við Evrópusambandið. Hv. þm. Birgir Ármannsson og ýmsir aðrir spyrja: Er þetta mikil breyting eða lítil?

Það er eðlilegt að spurt sé og auðvitað er svarið matsatriði fyrir hvern og einn. Það má vera býsna augljóst hverjum manni að þær tafir sem urðu á þessu kjörtímabili af ónefndum ástæðum á landbúnaðar- og sjávarútvegsköflunum hafa orðið til þess að viðræðum um þá kafla verður ekki lokið fyrir kosningar. Það er því harla merkingarlítið að hefja þær með það í huga að hér geta orðið ríkisstjórnarskipti og breytingar á pólitískum vilja innan mjög skamms tíma.

Hitt er svo breyting að það hefði mátt ætla að takast mætti að opna einn kafla enn um dóms- og innanríkismál á ríkjaráðstefnu fyrir kosningar sem ákveðið hefur verið að falla frá og það er þess vegna augljóslega breyting á ferlinu. Nú geta þingmenn metið hver og einn hvort það er mikil eða lítil breyting að fallið sé frá því að opna einn kafla sem hefði mátt opna fyrir kosningar, en þá verður að hafa í huga að 27 kaflar af 33 hafa þegar verið opnaðir og 11 þeirra hefur verið lokað.

Ég legg þó fyrst og fremst áherslu á að nú hefur verið búið um málið með þeim hætti að framhald þess er tryggt og viðræðurnar geta haldið áfram á nýju kjörtímabili. Ég vona að þessi umbúnaður dragi úr þeim mikla ótta sem hefur grafið um sig meðal sumra alþingismanna við aðildarviðræður og við niðurstöður þeirra sem hefur gert það að verkum að þeir hafa kallað á að menn færu í þjóðaratkvæðagreiðslu fyrir fram um eitthvað sem enginn veit hvað er. Það skyldi þó ekki vera að menn skelfist svona mikið að niðurstöður aðildarviðræðnanna verði einfaldlega svo góðar (Forseti hringir.) að þeir muni tapa kosningum ef þær liggja fyrir?