141. löggjafarþing — 65. fundur,  15. jan. 2013.

störf þingsins.

[13:50]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Aðildarviðræðum við Evrópusambandið verður haldið áfram svo lengi sem þessi ríkisstjórn er við völd. [Hlátur í þingsal.] Hins vegar hefur verið tekin ákvörðun um það í málamiðlun milli stjórnarflokkanna að hægja á viðræðunum þangað til þjóðin gengur að kjörborðinu í lok aprílmánaðar. Fyrir fylgjendur aðildar að Evrópusambandinu er þetta skynsamlegasta leiðin að svo komnu máli því að annars væri ferlið í fullkomnu uppnámi.

Þetta sýnir hins vegar mjög vel hvaða staða er uppi í íslenskum stjórnmálum. Hún er þessi: Ef þjóðin vill taka upplýsta ákvörðun um hvort hún eigi að ganga í Evrópusambandið, skipta um mynt, hafa betri aðgang að mörkuðum, losna við verðtryggingu, fá betri vexti fyrir heimili og fyrirtæki verður hún að fylkja sér á bak við jafnaðarmenn, Samfylkinguna. Að öðrum kosti munu einangrunaröflin ná hér völdum og um leið verður þessi aðildarumsókn dregin til baka og þjóðin fær ekki að taka upplýsta ákvörðun um hvort hún ætli að ganga í Evrópusambandið.

Þannig teiknast upp valkostirnir fyrir íslenska kjósendur að þremur mánuðum liðnum. Þeir hafa valið og ég segi við hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur: Já, kjósum um Evrópusambandið í næstu alþingiskosningum. Já, leyfum þjóðinni að taka afstöðu til þess hvort hún vill hafa hér við völd jafnaðarmenn, Samfylkinguna sem vill leyfa þjóðinni að taka upplýsta ákvörðun um aðild að Evrópusambandinu, eða hvort hún vill hleypa að einangrunaröflunum svo við getum gengið til liðs við einangrunarsambandið, lokað hér af og ekki leyft þjóðinni að taka upplýsta ákvörðun um hvort hún ætli að skipta út krónu, losna við verðtryggingu og fá lægri vexti af húsnæðislánum sínum eða hafa alvöruuppbyggingu í íslensku atvinnulífi.

Já, það verður kosið um Evrópusambandið í næstu alþingiskosningum og valið er skýrt.