141. löggjafarþing — 65. fundur,  15. jan. 2013.

störf þingsins.

[13:52]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Frú forseti. Það eina sem vantaði hjá hv. þm. Magnúsi Orra Schram hér á undan var að tala um að það yrði alltaf sól á sunnudögum þegar við yrðum komin í Evrópusambandið og svo hallelúja á eftir.

Það er eins og hv. þingmaður fylgist ekki með erlendri fjölmiðlaumræðu, það er eins og hv. þingmaður fylgist ekki með því sem er að gerast í Evrópusambandinu. Það er eins og hv. þingmenn Samfylkingarinnar fylgist heldur ekki með því sem er að gerast í íslensku samfélagi. Skoðanakannanir sýna ítrekað að meiri hluti þjóðarinnar er andsnúinn ESB-aðild. Skoðanakannanir sýna líka að meiri hluti þjóðarinnar, mikill meiri hluti, vill draga Evrópusambandsumsóknina til baka. Það er einungis einn stjórnmálaflokkur, Samfylkingin, sem vill halda þessu til streitu og það heyrðum við á ræðu hv. þingmanns áðan.

Miðað við þá yfirlýsingu sem ríkisstjórnin gaf frá sér í gær virðist vera hafið einhvers konar túlkunarstríð milli Samfylkingar og Vinstri grænna um það hvað hún feli í sér. Felur hún í sér einhverja breytingu á aðildarferlinu eða felur hún ekki í sér breytingu? Þetta aðildarferli mun halda áfram, segja þingmenn Samfylkingarinnar, það er ekkert að breytast, það stóð ekki til að opna þá kafla sem á að fresta núna til hausts fyrr en næsta haust. Það á að halda áfram vinnu við alla aðra kafla. Það á að halda áfram að taka við styrkjum frá Evrópusambandinu. Það sem þarf einfaldlega að gerast hér, og Samfylkingin hefur komið í veg fyrir það með því að stilla enn einu sinni samstarfsflokknum upp við vegg í ríkisstjórn og tryggja að ekki sé meiri hluti í það minnsta í utanríkismálanefnd fyrir slíkri tillögu, er að Alþingi á að taka ákvörðun um það ef það á að leggja þessa umsókn eða viðræðurnar til hliðar. Ríkisstjórnin hefur talað um að Alþingi hafi ákveðið að sækja um aðild. Það á að vera Alþingi sem ákvarðar þá að leggja þetta til hliðar og Alþingi sem ákvarðar þá um að setja þetta mál í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Ég hvet því hv. stjórnarliða Samfylkingarinnar til þess að leyfa Alþingi að taka ákvörðun um þetta mál. Ég hvet hv. þingmenn og hæstvirta ráðherra Vinstri grænna til að taka þátt í að stoppa þetta mál, (Forseti hringir.) leggja umsóknina formlega til hliðar og hætta þessu túlkunarstríði við Samfylkinguna opinberlega því að slík umræða er þjóðinni til skammar.