141. löggjafarþing — 65. fundur,  15. jan. 2013.

störf þingsins.

[14:04]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Frú forseti. Fjölmargir Íslendingar telja að Íslendingar eigi að vera þjóð meðal þjóða í Evrópusambandinu. Samfylkingin einn þingflokka á Alþingi hefur stutt þessa framtíðarsýn og sýnt dug sinn bæði hvað varðar þingsályktun um aðildarferli, sem leiddi til þess að við hófum aðildarviðræður við Evrópusambandið árið 2009, og hefur staðið vörð um þetta aðildarferli.

Það er alþekkt innan Evrópusambandsins að aðildarviðræður við sambandið breyta um takt í aðdraganda kosninga í umsóknarlöndunum. Það var mat okkar í þingflokki Samfylkingarinnar að best væri að koma aðildarferlinu í var fyrir kosningar í stað þess að setja það í uppnám. Það eru langtímahagsmunir í húfi fyrir Ísland.

Af því að hv. þm. Birgir Ármannsson skilur ekki samkomulag stjórnmálaflokkanna, sem ég verð að viðurkenna að mér finnst mjög skýrt samkomulag, tel ég rétt að ítreka að með því er búið að hægja á ferlinu hvað varðar samningsmarkmið fyrir þá kafla sem lúta að landbúnaðar- og sjávarútvegsmálum. Það verður verkefni næstu ríkisstjórnar að móta þau samningsmarkmið.

Í næstu kosningum verður val kjósenda óvenjuskýrt. Þeir geta valið Ísland sem fullvalda ríki innan Evrópusambandsins með því að kjósa Samfylkinguna eða áframhaldandi takmarkað fullveldi EES. (Forseti hringir.) Þá er fjöldinn allur af stjórnmálaflokkum í boði, frú forseti.