141. löggjafarþing — 65. fundur,  15. jan. 2013.

náttúruvernd.

429. mál
[14:06]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um náttúruvernd. Í nóvember 2009 var skipuð nefnd um endurskoðun núgildandi laga, nr. 44/1999, um náttúruvernd. Nefndin skilaði í ágúst 2011 svokallaðri hvítbók um löggjöf til verndar náttúru Íslands þar sem fjallað er heildstætt um það lagaumhverfi sem snýr að náttúruvernd á Íslandi, skuldbindingar Íslands samkvæmt alþjóðasamningum og um íslenska náttúru. Jafnframt er fjallað um þær nýju aðferðir og viðhorf sem hafa rutt sér til rúms í náttúruvernd á alþjóðavísu og settar fram tillögur um útfærslu þeirra í íslenskri löggjöf. Hvítbókinni var ætlað að stuðla að almennri umræðu og þátttöku almennings um stefnumótun um náttúruverndarlöggjöf.

Efni bókarinnar var aðalumfjöllunarefni á umhverfisþingi 2011 og jafnframt var efnt til almennra kynningarfunda um hana á landsbyggðinni. Í kjölfarið hófst opið umsagnarferli þar sem almenningi var gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum við efni hvítbókarinnar. Að því búnu fól ráðuneytið Aagot Óskarsdóttur lögfræðingi að semja drög að frumvarpi á grundvelli tillagna hvítbókarinnar og þeirra athugasemda sem borist höfðu. Það má segja að þessi nálgun hafi verið nokkurt nýmæli við undirbúning lagasetningar á Íslandi þar sem farin var sú leið að gera ítarlega og breiða úttekt á lagaumhverfi viðkomandi málaflokks.

Drög að frumvarpi til laga um náttúruvernd voru svo send viðkomandi stofnunum umhverfisráðuneytisins til umsagnar í júlí sl. og að því ferli loknu voru ný drög birt í september á heimasíðu ráðuneytisins til almennrar kynningar og athugasemda. Auk þessa óskaði ráðuneytið eftir skriflegum umsögnum yfir 100 aðila og bárust frá þeim um 50 umsagnir, m.a. frá stofnunum, sveitarfélögum, félagasamtökum og einstaklingum. Það var farið vandlega yfir þær og gerðar margvíslegar breytingar á frumvarpsdrögunum með hliðsjón af þeim ábendingum sem fram komu.

Í áfangaskýrslu í mars 2010 lagði nefnd um endurskoðun náttúruverndarlaga til að ráðist yrði strax í aðkallandi breytingar á tilteknum greinum gildandi náttúruverndarlaga. Því var lagt fram á 140. löggjafarþingi frumvarp til laga um breytingu á náttúruverndarlögum sem var þá 225. mál og fól meðal annars í sér breytingar á 17. gr. náttúruverndarlaga, um akstur utan vega, og 37. gr., um sérstaka vernd tiltekinna jarðmyndana og vistkerfa. Stofnanir ráðuneytisins töldu ástæðu til að taka sérstaklega út þessa þætti þar sem sérstaklega lægi á umbótum hvað varðaði þessa tvo undirmálaflokka náttúruverndarlöggjafarinnar.

Frumvarpið var eins og kunnugt er ekki afgreitt á 140. löggjafarþingi og af þeim sökum hefur efni þess verið tekið með lítils háttar breytingum upp í það frumvarp sem hér er mælt fyrir.

Í þessu frumvarpi er lögð áhersla á svokallaða vistkerfisnálgun. Þar er um að ræða nýja nálgun í náttúruvernd sem er meðal annars vinnulag í alþjóðasamningnum um líffræðilega fjölbreytni. Þar er sem sé um að ræða aðferð til að ná fram samþættri stjórn á nýtingu náttúruauðlinda sem miðar að vernd og sjálfbærri nýtingu. Aðferðin grundvallast á vísindalegri þekkingu á hinum ólíku vistkerfum og starfsemi þeirra og þeirri vissu og þekkingu að hver þráður í vef vistkerfisins skiptir máli og sérhvert inngrip í vistkerfið getur haft áhrif á aðra þræði þess.

Markmiðsákvæði frumvarpsins eru mun ítarlegri en í núgildandi lögum. Þar á meðal eru sérstök verndarmarkmið, annars vegar fyrir vistgerðir, vistkerfi og tegundir og hins vegar fyrir jarðminjar, vatnasvæði og landslag. Þá eru í frumvarpinu settar fram nokkrar meginreglur umhverfisréttarins sem ber að leggja til grundvallar við framkvæmd laganna, þ.e. meginreglur almennt. Síðan eru útfærðar nokkrar helstu meginreglur umhverfisréttar sérstaklega, varúðarreglan og greiðslureglan.

Í frumvarpinu er kveðið með skýrari hætti en áður á um hlutverk og ábyrgð þeirra stjórnvalda sem koma að náttúruverndarmálum sem og verkaskiptingu þeirra á milli. Á þetta hefur þó nokkuð skort og í því sambandi er sérstaklega leitast við að styrkja stjórnsýslu náttúruverndar á landsbyggðinni. Þá er ítarlegar mælt fyrir um undirbúning ákvarðana og réttaráhrif þeirra og sérstaklega lögð áhersla á vísindalegan og fræðilegan grundvöll ákvarðanatöku sem ætti auðvitað að vera okkur leiðarljós í öllum málum.

Ákvæði frumvarpsins er varða almannarétt eru styrkt, m.a. með því að heimila almenningi að leita úrlausnar Umhverfisstofnunar um hvort hindranir sem lagðar eru við för almennings um land séu lögmætar.

Um almannarétt er einnig fjallað í markmiðsákvæðum frumvarpsins. Þetta er gríðarlega mikilvægur réttur sem er þarna undir og megintónar hans eru skýrir í núverandi náttúruverndarlöggjöf en við töldum að það mætti styrkja utanumhald þess enn frekar, enda ríkir um það almenn og víðtæk sátt í íslensku samfélagi.

Þá er lagt til að ákvæði um umferð um vötn og meðferð elds séu færð út úr vatnalögum og lögum um sinubrennur og meðferð elds á víðavangi þar sem tilgangurinn er sá að auðvelda almenningi yfirsýn yfir þær reglur sem gilda um för, dvöl og umgengni í náttúru Íslands sem er þá komið fyrir á einum stað, sem sé í náttúruverndarlögum.

Í frumvarpinu er lögð áhersla á að náttúruminjaskrá, þar á meðal framkvæmdaáætlun hennar, verði meginstjórntæki náttúruverndar á Íslandi. Það má segja að með þeirri nálgun sé verið að hverfa frá núverandi nálgun í uppstillingu áforma náttúruverndar- og umhverfisyfirvalda að því er varðar friðlýsingar sem nú er komið fyrir í náttúruverndaráætlun sem er samþykkt af þinginu, en hér er þess freistað að fara dálítið aðra leið og þá fyrst og fremst í því skyni að markmiðum um vernd verði frekar náð en við núverandi fyrirkomulag. Í þeirri nálgun felst meðal annars að sett eru fram ítarleg ákvæði um val náttúruminja á skrána og um undirbúning hennar, kynningu og samráð. Meginreglan er sem sé sú að framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár er grundvöllur friðlýsinga og friðunar samkvæmt frumvarpinu. Þá er einnig gert ráð fyrir auknu samráði við hagsmunaaðila, sveitarfélög, landeigendur og almenning við gerð framkvæmdaáætlunar um náttúruvernd, en eins og málunum er fyrirkomið núna er náttúruverndaráætlun samþykkt af þinginu og síðan afhent umhverfis- og auðlindaráðherra til framkvæmda sem felur Umhverfisstofnun framkvæmdina. Þá höfum við orðið þess áskynja að sú staðreynd að samráð hefur ekki verið viðhaft á fyrri stigum geri það að verkum að verndarmarkmiðum er ekki náð. Menn hafa efasemdir um verndarsjónarmið vegna þess að það er komið seint að máli við viðkomandi hagsmunaaðila í ferlinu. Við teljum að sá máti sem hér er lagður til sé skynsamlegri og feli í sér eðlilegri nálgun gagnvart hagsmunaaðilum, sveitarfélögum og landeigendum þar sem samráðsferlið á sér stað allt frá upphafi ferlisins í heild. Hagsmunaaðilar eiga þar með aðkomu að því hvernig áætluninni er stillt upp.

Það eru lagðar til ákveðnar breytingar á undirbúningi friðlýsinga og það eru skýrari ákvæði um undanþágur frá ákvæði um auglýsingu um friðlýsingu og um afnám eða breytingu friðlýsinga. Friðlýsingarflokkar eru færðir nær flokkunarkerfi IUCN, þ.e. Alþjóðanáttúruverndarsamtakanna, og má þá segja að friðlýsingarflokkar hér á landi séu færðir nær því sem almennt gerist og séu þá sambærilegir við það sem almennt gerist þar sem þetta alþjóðlega flokkunarkerfi er víða lagt til grundvallar. Þá er sem sagt friðlýsingarflokkunum fjölgað með það fyrir augum að skipulag þeirra endurspegli betur markmið friðlýsinga. Það eru mjög margir mismunandi flokkar friðlýsingar, ein tegund er friðland og önnur þjóðgarður og svo eru friðlýsingar af ýmsu tagi.

Þá er sérstaklega mælt fyrir um heimildir til að ákveða vernd vatnasvæða þar sem litið er til þess að vatnið er ein mikilvægasta og verðmætasta auðlind þjóðarinnar og oft einnig órjúfanlegur þáttur landslags. Það helst í hendur við innleiðingu vatnatilskipunar sem við höfum fest í íslenska löggjöf. Ákvæði um friðun vistkerfa, vistgerða og tegunda eru ítarlegri en í gildandi lögum og þá aftur í samræmi við vistkerfisnálgun, m.a. að því er varðar réttaráhrif slíkra ákvarðana.

Ákvæði um innflutning og dreifingu framandi lífvera í frumvarpinu eru mun ítarlegri en í núgildandi lögum og þar er skýrt kveðið á um leyfisveitingar Umhverfisstofnunar. Í þessu sambandi var litið til skuldbindinga Íslands með aðild að ýmsum alþjóðasamningum til að vernda upprunalegt lífríki landsins og sporna við innflutningi framandi lífvera sem ógna vistkerfum, vistgerðum eða innlendum tegundum. Þar á meðal er samningurinn um líffræðilega fjölbreytni og Bernarsamningurinn um verndun villtra plantna og dýra og lífsvæða í Evrópu.

Það ber einnig að nefna samþykkt ríkisstjórnar Íslands um framkvæmd samningsins um líffræðilega fjölbreytni sem er vinna sem á rætur aftur fyrir núverandi kjörtímabil þar sem stjórnvöld í samsetningu ýmissa flokka hafa gerst aðilar og viljað virða samning um líffræðilega fjölbreytni sem er einn af lykilsamningum Sameinuðu þjóðanna á vettvangi umhverfis- og náttúruverndarmála. Þar er meðal annars fjallað um aðgerðir til að takmarka dreifingu framandi ágengra tegunda, en þar er lögð mikil áhersla á að auka vægi samningsins um líffræðilega fjölbreytni við endurskoðun laga sem tengjast nýtingu náttúrunnar. Sá samningur skipar þá mikilvægari og dýrmætari sess í þeim lagabálkum sem varða náttúruvernd og inngrip í náttúruna og nýtingu hennar.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir auknum heimildum stjórnvalda til að bregðast við brotum gegn ákvæðum laga og reglna, ekki síst með beitingu þvingunarúrræða. Ákvæðin hafa víðara gildissvið en áður og úrræði stjórnvalda eru útfærð ítarlegar en áður var. Það er nýmæli í frumvarpinu um stofnun náttúruverndarsjóðs sem er ætlað að stuðla að náttúruvernd og umönnun friðar og friðlýstra náttúruminja og auka fræðslu, enda er þekking og fræðsla hornsteinn náttúruverndar.

Það er gert ráð fyrir skipun stjórnar þar sem sitja fulltrúar Sambands íslenskra sveitarfélaga, Umhverfisstofnunar og náttúru- og umhverfisverndarsamtaka. Stjórninni er ætlað að sjá um umsýslu sjóðsins og að úthluta styrkjum. Það er gert ráð fyrir að tekjur sjóðsins verði ákveðnar á fjárlögum og það er þá síðari tíma mál að ákveða framlög í sjóðinn, hvort sem er á fjárlögum eða með öðrum sérstaklega skilgreindum framlögum.

Auk þessa eru lagðar til nokkrar breytingar á öðrum lögum í samræmi við ákvæði frumvarpsins, en mikilvægasta breytingin sem þar er lögð til er að ákvæðin um nám jarðefna verði flutt í skipulagslög og jafnframt lög um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu. Byggir sú breyting á því að eðlilegt sé að fela sveitarstjórnum alfarið ábyrgð og eftirlit vegna útgáfu framkvæmdaleyfa að þessu leyti þegar um er að ræða nám jarðefna en slík efnistaka er almennt háð framkvæmdaleyfi og ætti að falla vel að laga- og regluumhverfi framkvæmdaleyfa almennt.

Það er ljóst að eftirlit Umhverfisstofnunar er í dag einskorðað við frágang efnistökusvæða og er víkjandi gagnvart eftirliti sveitarstjórna vegna útgáfu framkvæmdaleyfa og væri málinu mun betur og skynsamlegar fyrir komið með þeim hætti sem hér er gerð grein fyrir.

Virðulegur forseti. Ég hef rakið meginefni frumvarpsins og legg til að því verði að lokinni 1. umr. vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar.