141. löggjafarþing — 65. fundur,  15. jan. 2013.

náttúruvernd.

429. mál
[14:23]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Fyrsta spurningin varðar kostnaðarauka. Það er rétt sem fram kemur að í kostnaðarmati fjármálaráðuneytisins er gert ráð fyrir 110 millj. kr. kostnaði við framkvæmd laganna á ári. Ég geri ráð fyrir því að þingið muni taka það sérstaklega til skoðunar þegar ákvörðun verður tekin um hvenær lögin taka gildi. Það liggur þá fyrir hver sú upphæð er og er ljóst að nokkrir framkvæmdaþættir undir frumvarpinu eru háðir því hversu langur tími er gefinn til innleiðingar einstakra ákvæða laganna. Ég vænti þess því að umhverfis- og samgöngunefnd taki það sérstaklega til skoðunar, þ.e. beri það saman við kostnaðarmat fjármálaráðuneytisins, sérstaklega í ljósi þess hvernig stendur á spori á kjörtímabilinu, og að menn skoði gildistímann sérstaklega og samspil hans og kostnaðar við innleiðinguna.

Í öðru lagi bar hv. þingmaður fram spurningu sem varðaði almannarétt. Það er mikilvægt að við höldum því til haga að þegar rætt um almannarétt er átt við frjálsa för almennings um landið, sem er annað en frjáls för almennings um landið á vélknúnum ökutækjum. Þar erum við miklu frekar að tala um hvaða hagsmunir eru í húfi hverju sinni. Ég veit að hv. þingmaður hefur sérstakan áhuga á verndaráætlun Vatnajökulsþjóðgarðs í þessum efnum þar sem við verðum að halda því til haga að grundvöllur ákvörðunartöku er náttúruverndin sem slík, hún er númer eitt. Númer tvö er síðan hin mikilvæga aðkoma almennings, að nýta og njóta landsins.

Varðandi síðan aðkomu hagsmunaaðila hefur samráðið verið gríðarlega mikið en ég vænti þess, virðulegi forseti, að ég geti svarað því betur í síðara andsvari.