141. löggjafarþing — 65. fundur,  15. jan. 2013.

náttúruvernd.

429. mál
[14:29]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir yfirferðina á málinu. Þetta er mikill lagabálkur en mig langar að staldra aðeins við umsögn frá ráðuneytinu. Samkvæmt nýjum sveitarstjórnarlögum sem tóku gildi á síðasta ári þarf að leggja fram kostnaðarmat þegar menn leggja fram frumvörp og þótt samkomulag hafi verið um að slíkt yrði gert var það því miður oft brotið áður fyrr. Það stingur aðeins í augun að ráðuneytið metur kostnaðaraukann fyrir sveitarfélögin í landinu 20–50 milljónir. Þetta eru ekki háar tölur en samt mikill mismunur.

Það kemur líka fram í texta frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu að sveitarfélögin sjálf meti þennan kostnað umtalsvert hærri. Sú tala kemur ekki fram og ég hef svo sem ekki lesið athugasemdirnar sem hafa verið gerðar við frumvarpið og því langaði mig að spyrja hæstv. ráðherra, ef hæstv. ráðherra hefði þær upplýsingar með sér, hvort hún gæti upplýst okkur um hvað sveitarfélögin mætu kostnaðinn miklu hærri en kemur fram í kostnaðarumsögn frumvarpsins.

Það var komið aðeins inn á kostnaðaraukningu sem mundi af hljótast ef lögin tækju gildi 1. júlí 2013. Hversu mörgum greinum í frumvarpinu þyrfti að fresta þó að lögin sjálf tækju gildi og gildistaka annarra greina eða hugsanlega hluta frumvarpsins gæti frestast til 1. janúar 2014? Það væri eðlilegra og þá í samræmi við fjárlögin. Í fjárreiðulögunum er strangt tiltekið bannað að menn leggi fram mál með þessum hætti.