141. löggjafarþing — 65. fundur,  15. jan. 2013.

náttúruvernd.

429. mál
[14:31]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Í fyrsta lagi varðandi kostnaðarmatið hlýtur framkvæmd svona stórs og ítarlegs lagabálks og þær breytingar sem hér eru lagðar til að því er varðar náttúruverndarnefndirnar og ítarlegri aðkomu sveitarfélaganna á framkvæmd náttúruverndar en verið hefur að þurfa að þróast með einhverjum hætti inn í framtíðina þannig að sveitarfélögin þrói það smám saman í samspili við ríkið hversu umfangsmikið starf þarna er um að ræða. Okkur er alveg ljóst hvert markmiðið er en útfærslan þarf að taka á sig mynd eftir því sem framkvæmdinni vindur fram. Þar sem hv. þingmaður spurði um mögulega áfangaskiptingu lögleiðingar frumvarpsins, ef svo má að orði komast, treysti ég hv. umhverfis- og samgöngunefnd mjög vel til að fara yfir það.

Mér finnst skipta mjög miklu máli sá tónn sem kemur fram í andsvörum bæði hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar og núna Ásbjörns Óttarssonar og endurspeglar skilning á því að hér er um að ræða mjög víðtæka löggjöf. Hér er um að ræða löggjöf sem verður að vera víðtæk sátt um. Þetta getur ekki verið mjög „pólaríseruð“ löggjöf, ef svo má að orði komast, og ég held að það ætti öllum að vera ljóst sem að málinu koma, bæði umhverfis- og samgöngunefnd og þeim hv. þingmönnum sem láta sig málið varða með öðrum hætti, að hér er um að ræða svo mikilvægar réttarbætur að svo mörgu leyti og þá sérstaklega það sem ég nefndi í inngangi mínum sem varðar framkvæmd náttúruverndar í landinu, bæði framkvæmd friðlýsinga og síðan umsýsla náttúruverndarsvæða. Ég held að málið verði (Forseti hringir.) einfaldlega að fá mjög efnismikla umfjöllun í nefndinni og nefndin geri síðan tillögu um það hvernig það verði leitt til lykta með tilliti til og hliðsjón af dagatalinu.