141. löggjafarþing — 65. fundur,  15. jan. 2013.

náttúruvernd.

429. mál
[14:36]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurningarnar. Í fyrsta lagi að því er varðar þann kostnaðarauka sem af innleiðingu laganna gæti stafað búa sveitarfélögin fyrir við mjög mismunandi aðstæður eins og hv. þingmanni er kunnugt. Það er vert að halda því til haga, eins og þingmaðurinn bendir á, að náttúrustofurnar hafa nú þegar mjög skýrt hlutverk gagnvart sveitarfélögunum og þeim ber að sinna náttúruverndarverkefnum hverri á sínu svæði samkvæmt lögum um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofurnar. Í frumvarpinu sem hér er lagt fram er reglugerðarheimild undir samstarf þar sem sérstaklega er gert ráð fyrir því að auka og styrkja það samstarf. Það hefur töluvert verið kallað eftir því í samráði við sveitarfélögin og í þeim samskiptum sem náttúruverndaryfirvöld hafa átt í við sveitarfélögin hefur verið kallað mjög mikið eftir því að bæði meiri ábyrgð og meiri framkvæmd sé heima í héraði. Ég held að við viljum öll stíga þau skref en þau þurfa líka að vera mjög skýr. Náttúrustofurnar gegna þar mikilvægu hlutverki.

Hv. þingmaður spurði líka um slysavarnafélögin og ég tel að það sé mjög þörf ábending. Ég vænti þess að þetta hafi verið kortlagt í allri þeirri vinnu sem hefur átt sér stað í tengslum við slóðamálin og kortlagningu á vegslóðum og ætti auðvitað að vera hluti af þeim samskiptum sem tekin eru upp við hvert sveitarfélag fyrir sig varðandi þjónustuvegi. Ég geri ráð fyrir að það sé hluti af málinu en mun að fenginni þessari ábendingu hv. þingmanns kanna það sérstaklega.