141. löggjafarþing — 65. fundur,  15. jan. 2013.

ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að hægt verði á viðræðum við ESB.

[15:15]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég held að það sé alrangt. Ég held að málið snúist miklu fremur um að koma málinu til þjóðarinnar. Vorið 2009 samþykkti Alþingi að sækja um aðild að Evrópusambandinu fyrir Íslands hönd. Sú ákvörðun var umdeild innan þings og utan. Fyrir því eru ýmsar ástæður. Menn ætluðu margir að það yrði ekki eins kostnaðarsamt, ekki eins langvinnur ferill og ekki eins á dýptina og reyndin hefur síðan orðið. Höfðu menn til hliðsjónar samninga Noregs við Evrópusambandið í byrjun 10. áratugarins, en haustið 1992 sótti Gro Harlem Brundtland um aðild fyrir hönd Noregs. Hálfu öðru ári síðar gekk norska þjóðin til þjóðaratkvæðagreiðslu um málið og hafnaði samningunum. Það var stutt ferli og margir höfðu ætlað að svo yrði hjá okkur. Það var svo um marga, það þekki ég, ég þekki meira að segja af eigin raun að menn litu jafnvel á það sem tæknilegt og taktískt úrlausnarefni hvort atkvæðagreiðslan yrði ein eða tvær. Reyndin varð hins vegar allt önnur. Þótt við litum mörg á það með þessum hætti sáu það allir í hendi sér að það væri lýðræðislegra að spyrja þjóðina fyrst og var sú krafa reist á hendur Samfylkingunni. Hún hafnaði því. Þess vegna varð það uppi á teningnum sem allir þekkja síðan.

Ég hef talað fyrir því á kjörtímabilinu að við reyndum að útkljá málið fyrr á grundvelli þeirra upplýsinga og þeirrar vitneskju sem væri fyrir hendi. Ég talaði fyrir því inn í stjórnarmeirihlutann en fyrir því hefur ekki orðið hljómgrunnur.

Nú er kjörtímabilið senn á enda runnið. Þá kemur að því að menn þurfa að gera það upp við sig hvort áfram eigi að hunsa þjóðarviljann eða leita hann uppi, leita til (Forseti hringir.) hans og virkja lýðræðið, að nota lýðræðislykilinn inn í nýtt kjörtímabil. (Forseti hringir.) Ég á eftir að sjá þá sem munu að hafna því.