141. löggjafarþing — 65. fundur,  15. jan. 2013.

ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að hægt verði á viðræðum við ESB.

[15:33]
Horfa

Róbert Marshall (U):

Virðulegur forseti. Það sem mestu máli skiptir í þessu máli er að vinna í átt að bestu mögulegu lausninni. Ég held að allir hljóti að vera sammála um að það hlýtur að vera brýnasta hagsmunamál Íslendinga að ná að landa eins góðum samningi og nokkur kostur er. Hvort sem fólk er hlynnt aðild eða ekki hlýtur fólk að vera sammála um að nauðsynlegt sé að taka ákvörðun um framhald málsins á grunni þess að samningur liggur fyrir. Menn verða auðvitað að skoða þá ákvörðun sem hér er búið að taka í þessu ljósi og velta fyrir sér hvort hún sé málinu til gagns. Ég er þeirrar skoðunar að það sé mjög ólíklegt.

Það er nauðsynlegt að halda dampi í þessari vinnu. Það hefur verið vel haldið á því af hálfu samninganefndarinnar og hæstv. utanríkisráðherra hingað til. Þetta er samt áhyggjuefni. Annað áhyggjuefni í málinu er það hversu óskýrt forustumenn ríkisstjórnarinnar tala um þá niðurstöðu sem hér liggur fyrir.

Hæstv. atvinnuvegaráðherra sagði frá því í fréttum í gær að búið væri að pakka málinu inn fram yfir kosningar. Hér talar svo hæstv. utanríkisráðherra um að búið sé að hægja á ferlinu. Ekki átta menn sig nákvæmlega á því hvað í því felst. Samninganefndin kemur nefnilega ekki til með að taka þátt í kosningabaráttunni.

Í einn og hálfan áratug sagði Sjálfstæðisflokkurinn að þetta mál væri ekki á dagskrá og eyddi ákvarðanatökunni þannig. Og mér sýnist því miður að stjórnarflokkarnir séu núna að falla í þá gryfju að láta hagsmuni stjórnmálaflokkanna ganga framar hagsmunum þjóðarinnar. Það er mikilvægt að ljúka þessu máli þannig að hægt sé að taka ákvörðun í því. Óvissa er kostnaðarsöm. Hér er um að ræða gríðarlega mikilvægt hagsmunamál fyrir alla Íslendinga og nauðsynlegt að halda vel á spilunum.

Ég óttast að hér sé ekki verið að því.