141. löggjafarþing — 65. fundur,  15. jan. 2013.

ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að hægt verði á viðræðum við ESB.

[15:35]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Þegar greidd voru atkvæði um það í þinginu á sínum tíma að sækja um aðild að Evrópusambandinu sagði ég við þá sem studdu málið sérstaklega og þá sem vilja ganga inn í Evrópusambandið: Þið eruð ekki að gera ykkar eigin málstað neitt gagn með því að búa svona um hnútana.

Það sem við erum að upplifa hér í dag er afleiðing af því að tveir flokkar sem hafa hvor sína stefnuna eru að burðast við að koma málinu eitthvað áfram. Það er í raun og veru ómögulegt. Það er það sem við eigum að læra af því sem gerst hefur hér undanfarin ár.

Utanríkisráðherra talar um evruna og það sem ég hef áður sagt um hana. Það sem við ræddum um í aðdraganda síðustu kosninga var að ef menn vildu taka upp nýjan gjaldmiðil á Íslandi væri í fyrsta lagi óþarfi að ganga í Evrópusambandið. Ef menn vildu hins vegar opna fyrir möguleika, eiga einhverja valkosti um þau efni í framtíðinni, væri skynsamlegt að vinna að því að lækka verðbólgu, lækka vexti, loka fjárlagagatinu og koma hagvexti af stað á Íslandi. Það væri hægt að gera með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og tryggja þannig að menn ættu einhverja möguleika í framtíðinni.

Í millitíðinni höfum við séð að krónan hefur verið eins konar bjargvættur í gegnum þessa krísu, forðað mjög auknu atvinnuleysi í gegnum efnahagslægðina okkar. Verkefnið er eftir sem áður hið sama, við erum enn að berjast við að koma vöxtum og verðbólgu niður og loka fjárlagagatinu. Og hagvöxtur er ófullnægjandi.

Það sem virðist vera að koma í ljós í þessari umræðu er að Vinstri grænir hafa tekið sérstaka ákvörðun um að halda áfram viðræðuferlinu, það verður haldið áfram að vinna í öllum opnum köflum og eitthvað hægt á öðrum, en það virðist ómögulegt að fá einhverja sameiginlega línu frá stjórnarflokkunum um það um hvað þessi ákvörðun að öðru leyti fjallar.

Það vekur athygli að menn reyndu að forða því að fyrir kosningar væri unnið í samningsafstöðu í sjávarútvegsmálum, en þó er það þannig að í sjávarútvegsmálunum var einna skýrust leiðbeining í meirihlutaáliti utanríkismálanefndar um það hvað menn vildu. Hvað er það sem menn óttast að geti orðið ágreiningur um í sjávarútvegskaflanum, ef eitthvað? Hvað er það? Hvers vegna í ósköpunum er ekki einmitt settur fullur kraftur í að móta samningsafstöðuna í sjávarútvegskaflanum þegar liggur (Forseti hringir.) jafnskýrt fyrir og raunin (Forseti hringir.) er í nefndarálitinu hvað það er sem lögð var áhersla á af hálfu utanríkismálanefndar?

Í raun og veru er stóra spurningin (Forseti hringir.) þessi: Hvers vegna í ósköpunum er Ísland ekki enn búið að semja samningsafstöðuna í þessum kafla, hvað sem þessu nefndaráliti líður, (Forseti hringir.) þegar svona langt er liðið frá því að samningaviðræðurnar hófust?