141. löggjafarþing — 65. fundur,  15. jan. 2013.

almenn hegningarlög.

478. mál
[16:24]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir umræðuna. Það er ástæða til að taka undir margt sem hér hefur verið sagt, t.d. sitthvað sem fram kom í máli síðasta ræðumanns um tálbeitur. Þar var að heyra áherslur sem ég er mjög sammála, til að mynda varnaðarorð. Ég er líka sammála hv. þm. Birgittu Jónsdóttur um lagarammann, að hann er í sjálfu sér góður, við erum að snurfusa hann til. Það gerum við ekki í einhverju tómarúmi í innanríkisráðuneytinu, eins og komið hefur fram. Þær lagabreytingar, sem eiga í reynd rót að rekja upphaflega til fullgildingar Evrópuráðssamnings um vernd barna gegn kynferðislegri misnotkun og kynferðislegri misneytingu, varð til þess að ráðist var í lagabreytingar. Eins og hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sagði réttilega kom allsherjarnefnd með tillögur um þær breytingar sem innanríkisráðuneytið hefur síðan unnið. Það er ástæða til að leggja áherslu á þetta samhengi hlutanna og það góða samstarf sem hefur myndast á þessu sviði á milli þingsins og ráðuneytisins og annarra sem að þessum málum koma.

Í umsagnarferli sem frumvarpið fékk, auk álitsgerðar þeirra sem ég hef þegar vísað til, kom það einmitt fram að lagaumgjörðin væri að mörgu leyti góð en að gera þyrfti á henni úrbætur, en svo þyrftum við að finna úrræði til að hrinda ýmsu því í framkvæmd sem við látum kveða á um í lögum.

Ég þakka allsherjarnefnd sérstaklega fyrir gott samstarf og þá yfirlýsingu formanns nefndarinnar, hv. þm. Björgvins G. Sigurðssonar, um að kappkostað verði að taka málið til efnislegrar umfjöllunar og hraða afgreiðslu þess sem verða má. Ég vil einnig lýsa mikilli ánægju með starf allsherjarnefndar nú, að efna til umræðu um mál sem þessu eru tengd. Ég held að það sé mjög til góðs að við virkjum saman kraftana.