141. löggjafarþing — 65. fundur,  15. jan. 2013.

almenn hegningarlög.

478. mál
[16:26]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. innanríkisráðherra fyrir ræðuna og það hvernig hann hefur nálgast þau erfiðu umræðuefni sem verið hafa til umfjöllunar á umliðnum dögum og vikum. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra um afstöðu hans til tveggja atriða sem fram komu á fundinum í morgun með öllum fagaðilunum og fleirum; annars vegar til þess viðhorfs sem tengist vistun fanga sem eiga við þessa ömurlegu fíkn að etja og eru sérstaklega vistaðir á ákveðinni deild innan Litla-Hrauns. Hvað hefur verið gert og hvaða fjármagn hefur verið veitt til þeirrar meðferðar sem kallað hefur verið eftir þannig að þegar þeir koma út aftur hafi alla vega verið reynt að gera þá að betri borgurum þannig að þeir fái raunverulega ný tækifæri þegar þeir koma út? Annars verður krafan háværari um að þeir verði undir stöðugu eftirliti. m.a. rafrænu. Hvað er verið að gera innan ráðuneytisins varðandi þá meðferð?

Í öðru lagi vil ég spyrja hæstv. ráðherra um viðhorf hans gagnvart sjónarmiði lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins um að þar þurfi lagaheimild til virkrar tálbeitu, þ.e. að lögreglan þurfi að fá virka tálbeituheimild vegna aukins aðgengis barnaníðinga á netinu.