141. löggjafarþing — 65. fundur,  15. jan. 2013.

almenn hegningarlög.

478. mál
[16:32]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er alveg rétt mat hjá hv. þingmanni. Ég vil ekki útiloka neitt en ég vil stíga mjög varfærnislega til jarðar. Við skulum horfa líka á það sem við höfum verið að gera vel, t.d. það ákvæði í lögum sem ég vék að áðan um að það sé refsivert að mæla sér mót við barn í kynferðislegum ásetningi, sem er nokkuð sem nýtist síðan í stærra samhengi. Það er eitt af framsæknustu skrefum sem stigin hafa verið í Evrópu og við höfum verið að stíga slík skref. Við þurfum að horfa til þess umhverfis sem við hrærumst í núna og hvað við getum gert.

Ég var að fá í hendur skýrslu frá starfshópi sem kannað hefur áhrif kláms og klámvæðingar á ofbeldi. Ég mun fljótlega gera grein fyrir tillögum sem fram koma frá hópnum og hvað sé til ráða. Af því að vísað var í netið er þar allt fullt af ofbeldisáróðri gegn konum, gegn litlum börnum. Þar þurfum við að taka okkur á.

Ég verð að segja það að þegar ýmsir innan lögreglunnar reisa stöðugt kröfur um rýmri heimildir til að nota tálbeitur eða til að hlera fólk eða fylgjast með því þá beini ég því vinsamlega til slíkra aðila að þeir hugi að því hvernig þau innan lögreglunnar og við sem samfélag, stofnanir samfélagsins, höfum beitt þeim úrræðum sem við höfum nú þegar. Þar er brotalamirnar fyrst og fremst að finna, tel ég. En við skulum líka varast að alhæfa um lögregluna vegna þess að innan lögreglunnar eru mismunandi áherslur. Það þekki ég vel bæði úr starfi mínu sem ráðherra dómsmála en einnig sem formaður BSRB til áratuga (Forseti hringir.) að verið hafa mjög mismunandi áherslur innan lögreglunnar hvað þetta varðar, enda er það fullkomlega eðlilegt í opnu lýðræðissamfélagi að þar séu mismunandi sjónarmið þegar kemur að (Forseti hringir.) vopnaburði eða forvirkum rannsóknum eða öðru slíku.