141. löggjafarþing — 65. fundur,  15. jan. 2013.

happdrætti.

477. mál
[16:35]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Frumvarpið sem ég mæli hér fyrir er fyrsti áfangi í þeirri stefnumörkun sem lýtur að því að draga svo sem kostur er úr óæskilegum áhrifum af happdrættis- og spilastarfsemi hér á landi og stuðla um leið að ábyrgri spilun, sem svo er kölluð, þar sem ágóði rennur eingöngu til innlendrar þjóðþrifastarfsemi. Áfangar á þeirri leið eru nokkrir. Í fyrsta lagi að koma á fót sérstakri stofnun sem annast faglegt og kerfisbundið eftirlit með þessari starfsemi hér á landi og er stjórnvöldum til ráðgjafar um þróun happdrættismála. Í öðru lagi að koma í veg fyrir ólöglega netspilun á erlendum sem innlendum vefsíðum. Í þriðja lagi að fylgja eftir þróun á þessu sviði svo sem varðandi breytt fyrirkomulag við spilun innan lands sem erlendis, ekki síst hvað varðar tilkomu netsins og tölvutækni í því sambandi. Í fjórða lagi að draga úr samkeppni á þessum markaði innan lands þannig að fjármagn nýtist sem mest til góðra málefna. Að endingu er markmiðið að hér á landi gildi ein heildstæð eða samstæð lög um happdrættismarkaðinn sem tryggi sem best skipulag og yfirsýn yfir málaflokkinn og sem mæti þeim kröfum og þörfum sem samfélagið gerir til þessara mála. Frumvarpi þessu er ætlað að ná árangri hvað varðar fyrstu þrjá áfangana á þessari leið til bætts umhverfis á happdrættis- og spilamarkaði á Íslandi.

Markmið breytinganna á lögum nr. 38/2005, er fyrst og fremst þríþætt. Í fyrsta lagi að skapa skilyrði fyrir meðferðarúrræði sem nái til þeirra sem eru hjálparþurfi vegna spilafíknar. Til þessa þarf mun meira fjármagn en til reiðu er. Jafnframt þarf að standa að vitundarvakningu um eðli og hættur peningaspila með áróðri og auglýsingum þar sem þær eru líklegastar til að hafa áhrif.

Í öðru lagi er markmið breytinganna að stemma stigu við spilun hérlendis á erlendum netsíðum. Ljóst er að umtalsverðir fjármunir fara úr landi vegna peningaspila á netinu og líkur eru á því að að minnsta kosti hluti þessa fjármagns hefði ella farið til innlendra happdrætta. Þess vegna er brýnt að koma í veg fyrir þetta útstreymi peninga til fyrirtækja sem ekki lúta hérlendu eftirliti og skapa forsendur fyrir ábyrgri spilun hjá íslenskum fyrirtækjum á netinu. Það er borin von að bann við netspilun næði tilgangi sínum, og þá er ég að tala um algjört bann, en með því annars vegar að gera fólki erfitt fyrir að spila á erlendum netsíðum með banni við millifærslum til leyfislausra fyrirtækja hvar á byggðu bóli sem þau eru og bjóða hins vegar upp á aðlaðandi ábyrga spilun á vegum íslenskra fyrirtækja er þessum málum beint í æskilegri farveg. Í úthlutun þess leyfis yrði lögð áhersla á hófstillta og ábyrga spilun sem dregur mjög úr félagslegum og samfélagslegum vandamálum.

Í þriðja lagi er markmið breytinganna að skapa forsendur fyrir virku eftirliti og samráði á peningaspilamarkaðinum hérlendis. Í því skyni er lagt til að stofnuð verði Happdrættisstofa sem hafi eftirlit og yfirsýn yfir spilamarkaðinn og birti reglulega upplýsingar um umfang hans.

Happdrætti hérlendis velta umtalsverðum fjárhæðum. Það er þess vegna full ástæða til að fylgst sé með þróun happdrættismarkaðarins innbyrðis, hreyfingum og utanaðkomandi ógnum. Til að standa straum af rekstri Happdrættisstofu og kostnaði við verkefni hennar skulu þeir sem hafa leyfi til að starfrækja happdrætti, spilakassa og veðmálastarfsemi samkvæmt 2. og 3. mgr. 2. gr. laga þessara, lögum um Happdrætti Háskóla Íslands, lögum um söfnunarkassa, lögum um Happdrætti Dvalarheimilis aldraðra sjómanna, lögum um happdrætti fyrir Samband íslenskra berkla- og brjóstholssjúklinga, lögum um getraunir og lögum um talnagetraunir, greiða eftirlitsgjald samkvæmt 2. mgr.

Eftirlits- og forvarnargjald rennur í ríkissjóð og er gjald sem nemur 0,8% af hreinum happdrættis- og spilatekjum þeirra sem getið er í 1. mgr. Gjaldið skal miða við næsta almanaksár á undan ákvörðun gjaldsins. Tekjur skal telja til hreinna happdrættis- og spilatekna á því ári sem þær verða til. Lagt er til að verkefni Happdrættisstofu verði þessi helst:

a. Að annast leyfisveitingar fyrir happdrættum, veðmálastarfsemi, opinberum fjársöfnunum og skyldri starfsemi á grundvelli laga og reglugerða. Gera verður ráð fyrir að leyfisveitingar til skyndihappdrætta og fjársafnana yrðu með lítt breyttu sniði, það er í höndum sýslumanna. Hlutverk Happdrættisstofu yrði að auka gagnsæi á þessum markaði með upplýsingaöflun og birtingu þeirra.

b. Að hafa forgöngu um fræðslu og ráðgjöf um happdrættismálefni og skylda starfsemi. Að þessu verkefni yrði unnið í nánu samstarfi og samráði annars vegar við happdrættisfyrirtækin og hins vegar fræðasamfélagið og meðferðarstofnanir.

c. Að stuðla að forvörnum í samstarfi við hlutaðeigandi aðila með það markmið að takmarka spilafíkn og óæskileg áhrif spilunar. Snar þáttur í forvörnum er meðferð spilafíknar, fræðsla og upplýsingar, takmörkun á aðgengi og yfirsýn yfir markaðinn með könnunum og rannsóknum.

d. Að veita umsagnir um lagafrumvörp og drög að reglugerðum varðandi þau málefni sem heyra undir stofuna og eftir atvikum gera tillögur að reglugerðum til ráðherra.

e. Að annast eftirlit með leyfisskyldri starfsemi samkvæmt lögum þessum og öðrum lögum um happdrættismálefni. Í eftirlitinu felst m.a. að fara yfir ársreikninga og uppgjör vegna happdrættisstarfsemi, fylgjast með því að starfsemin sé í samræmi við ákvæði laga, reglugerða og útgefin leyfi, halda skýrslur um leyfi sem stofan gefur út og aðrir í umboði hennar, skipa happdrættisráð og eftirlitsmenn sem hafa yfirumsjón með framkvæmd útdrátta í happdrættum samkvæmt lögum og sjá til þess að happdrættisvélar, söfnunarkassar og hver sú tækni sem notast er við á happdrættismarkaðnum starfi í samræmi við settar reglur.

f. Að annast önnur verkefni sem ráðherra felur henni með reglugerð.

Ráðherra setur nánari reglur um verkefni stofunnar og tilhögun eftirlits með reglugerð. Í því skyni að rækja hlutverk sitt samkvæmt þessari grein er Happdrættisstofu heimilt að gera samninga við aðra aðila um framkvæmd einstakra verkefna, að fenginni staðfestingu ráðherra.

Á undanförnum árum hefur þróun á happdrættismarkaðnum verið sú að hann hefur stækkað umtalsvert, en það stafar fyrst og fremst af erlendum happdrættum sem ekki hafa leyfi til rekstrar hér á landi. Samkvæmt rannsókn undir verkstjórn dr. Daníels Þórs Ólasonar, dósents við sálfræðideild Háskóla Íslands, sem gerð var árið 2011, spiluðu rúmlega 76% landsmanna peningaspil að minnsta kosti einu sinni á 12 mánaða tímabili fyrir könnun. Í sams konar rannsókn undir verkstjórn dr. Daníels Þórs árið 2007 var sama hlutfall 67%, þ.e. spilun hafði aukist úr 67% í 76% og því er um að ræða talsverða aukningu. Þá má benda á að fjöldi þeirra landsmanna sem hafði lagt peninga undir á erlendum vefsíðum hafði áttfaldast á árabilinu 2005–2011. Loks er ljóst að talsverðar líkur eru á að markaðurinn muni halda áfram að stækka og því er þörfin fyrir skilvirkt eftirlit með happdrættum mun brýnni nú en áður.

Við gerð frumvarpsins hefur einkum verið stuðst við norska löggjöf, en fulltrúar ráðuneytisins fóru í heimsókn til allra Norðurlandanna til að kynna sér happdrættislöggjöf þeirra. Í ljós kom að eftirlit með happdrættismarkaðnum er mun skilvirkara og betra annars staðar á Norðurlöndunum og var sérstaklega horft til Noregs í þeim efnum í ljósi þess að Noregur hefur gert umtalsverðar umbætur á happdrættislöggjöfinni undanfarin ár.

Í skýrslu dr. Daníels Þórs Ólasonar kemur fram að 4–7 þús. Íslendingar á aldrinum 18–70 ára eigi í verulegum vanda vegna spilafíknar. Hafa verður í huga að spilafíkn varðar oft ekki eingöngu spilafíkilinn sem slíkan heldur einnig aðra sem standa honum næst. Því má ekki gleyma að fjölskyldur og vinir tengjast þessum einstaklingum og því má ætla að mun stærri hópur þjáist vegna spilafíknar hér á landi en rannsóknin gefur til kynna. Af þessum ástæðum þykir brýnt að endurskoða happdrættislöggjöfina í heild sinni, auka eftirlit með starfsemi á þessum markaði og koma á markvissara skipulagi hvað varðar fræðslu og forvarnir.

Svo sem fram hefur komið lítur ráðuneytið til löggjafar á Norðurlöndunum í þessu tilliti og þá einkum til norskrar löggjafar. Norsk stjórnvöld gerðu róttækar breytingar á happdrættislöggjöf sinni fljótlega eftir aldamótin og svo virðist sem þeim hafi orðið talsvert ágengt við að ná stjórn á markaðnum og sporna þar með við óæskilegum áhrifum happdrætta þar í landi. Rétt er að benda á að heildarendurskoðun tekur langan tíma enda mikilvægt að vanda til verka þar sem miklir hagsmunir eru undir. Þá er æskilegt að tryggja að breytingar séu gerðar í sem mestri sátt.

Í ljósi ofangreinds er það mat ráðuneytisins að brýnt sé að gera strax nauðsynlegar breytingar með það að markmiði að minnka framboð á erlendri happdrættis- og veðmálastarfsemi hér á landi og auka eftirlit með happdrættismarkaðnum. Nauðsynlegt er að hindra frekari útbreiðslu spilafíknar. Í því skyni þarf að auka rannsóknir á fíkninni sjálfri og helstu ástæðum hennar jafnframt því að kanna reglulega útbreiðslu spilavanda meðal landsmanna. Aukið framboð á fjölbreytilegum möguleikum á peningaspilum, sérstaklega á netinu, hefur alls staðar haft í för með sér aukinn spilavanda. Í nágrannalöndunum hefur þess vegna verið brugðið á það ráð að auka framlög til meðferðar við spilafíkn og rannsókna á henni. Þetta hefur ekki gerst á Íslandi. Sérstaklega er nauðsynlegt að auka vernd þeirra hópa sem eru viðkvæmari fyrir því að þróa með sér spilafíkn og þá sérstaklega börn og unglinga. Því er lagt til að gerðar verði í aðalatriðum þrjár breytingar á núverandi löggjöf.

Í fyrsta lagi verði komið á fót sérhæfðu stjórnvaldi sem hafi það eina hlutverk að sinna happdrættismálum hér á landi, eftirliti, stjórnsýslu og að skipuleggja fræðslu og forvarnir í samstarfi við til þess bæra aðila í samfélaginu, svo sem mennta- og heilbrigðisstofnanir og SÁÁ.

Í öðru lagi að sett verði bann við greiðsluþjónustu sem úrræði til þess að draga úr framboði á happdrættum og veðmálaþjónustum sem í boði er fyrir íslenska neytendur.

Í þriðja lagi að veita ráðherra heimild til að veita aðila eða aðilum saman, sem hafa leyfi til starfrækslu happdrættis á grundvelli sérlaga, leyfi til starfrækslu happdrættis og leikja á netinu. Hér er komið til móts við nýjar kröfur hvað spilaform og tækni varðar á spilamarkaði, en það tryggt um leið að sú tegund spilamennsku sé sett undir sama eftirlit og aðhald og önnur spilastarfsemi í landinu.

Svo sem fram hefur komið hefur þróunin verið sú að markaðurinn hefur stækkað umtalsvert og ef horft er út fyrir landsteinana er þróunin ákaflega hröð og talsverðar líkur á því að landsmenn verði útsettari fyrir happdrættum en verið hefur. Happdrætti, sem spila má í á netinu, eru sérstaklega slæm fyrir einstaklinga sem þjást af spilafíkn. Hægt er að spila allan sólarhringinn og hægt er að spila hratt og veðja háum fjárhæðum. Ef ekki verður brugðist við þessari þróun er fyrirséð að andfélagsleg áhrif happdrætta muni aukast næstu ár og því er ákaflega brýnt að setja hömlur á netspilun og koma á fót sérhæfðu stjórnvaldi til að hafa eftirlit með markaðnum hér á landi.

Ég hef gert í grófum dráttum grein fyrir helsta inntaki þessa frumvarps sem ég legg mjög mikið upp úr að Alþingi taki til rækilegrar og mjög markvissrar skoðunar. Ég bind vonir við að okkur hafi tekist í gerð frumvarpsins að ná bærilegri sátt við þá sem fara með þessi mál hér á landi. Þar er að sjálfsögðu að finna fólk í starfi sem vill að við höldum ábyrgt á þessum málum. Þetta er starfsemi sem veltir milljörðum króna, mörgum milljörðum króna. Við erum að taka örlítið brotabrot af þessari veltu til að setja í fyrsta lagi inn í eftirlit og í öðru lagi og miklu fremur og ekki síður inn í forvarnastarf og aðstoð við þá sem lenda í spilafíkn.

Ég ræddi spilavandann oft í þessum sal fyrir nokkrum árum. Ég gerði það strax og ég kom inn á þing og tók þar upp þráðinn þar sem hv. þáverandi þingmaður Guðrún Helgadóttir sleppti honum. Hún lét sig þessi mál mjög miklu varða. Í kjölfarið efndi ég til fundahalda sem voru opin öllum og einhvers staðar auglýst og við hittumst vikulega. Það voru bæði spilafíklar og aðstandendur þeirra og þá rann upp fyrir mér hver þessi vandi raunverulega var. Síðan hef ég heitið því að ef ég kæmist í aðstöðu til þá mundi ég gera allt sem í mínu valdi stæði til þess að laga eitthvað af þeim brotalömum sem þarna er að finna og þær eru margar. Við höfum efnt til samráðsfunda með happdrættunum hér og ég finn ekki annað, heyri ekki annað en að við höfum fundið ágætan sameiginlegan hljómgrunn.

Ég hefði viljað stíga miklu stærri skref núna en ég geri mér grein fyrir því að breytingar á þessu umhverfi verða ekki gerðar í einu heljarstökki og þær verða ekki gerðar með mjög skömmum fyrirvara. Við verðum að gefa okkur langan tíma til þess. Ég lýsti því hér hver framtíðarsýn mín væri þar sem þessi starfsemi væri komin undir sama þakið en byggði ekki á samkeppnissjónarmiðum því að það er mjög skaðlegt þegar fyrirtæki sem keppa í happdrættismálum reyna að finna alltaf sífellt skilvirkari leiðir til að ná peningum af fólki sem oft á tíðum á erfitt með eigin ákvarðanir þegar spilafíknin er annars vegar.

Þetta þarf því allt að gerast í góðu samstarfi og það er á þeirri forsendu og með það í huga sem þetta frumvarp er lagt fram og ég vona svo sannarlega að þó að það sé seint fram komið nái það fram að ganga. Það eru ekki róttækar breytingar fólgnar í þessu frumvarpi. Það er fyrst og fremst þetta: Við erum að færa spilun á netinu inn í landið, inn til Íslands. Hún er núna á vegum erlendra aðila. Það er ekki vitað hvað þetta er mikið en samkvæmt ágiskunum erum við að tala um 2–3 milljarða á ári sem fara út úr landinu í gjaldeyri með þessum hætti. Við viljum færa þessa starfsemi til innlendra aðila en þeir geri það á ábyrgan hátt. Þetta er sú leið sem Norðmenn hafa farið.

Það verður aldrei hægt að fyrirbyggja algerlega ólöglega spilun á netinu, en það er hægt að koma böndum á hana með þessum hætti. Í öðru lagi erum við að færa eftirlit sem núna fer fram innan innanríkisráðuneytisins í litla stofu sem sinnir þessu verkefni og er auk þess ráðgefandi aðili gagnvart löggjafanum. Þetta eru litlir peningar sem við erum að tala um þarna, ef vel ætti að vera þyrfti fjármagnið að vera meira en við viljum ekki stíga stærri skref.

Síðan bíður hitt, hinar stóru lagabreytingar. Þær bíða næstu þinga en það væri gott að geta tekið umræðu þar sem fólk viðraði sína framtíðarsýn. Það munu menn eflaust gera í þeirri nefnd sem fær málið til umfjöllunar sem ég hygg að yrði allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis. Legg ég því til að málið gangi þangað að lokinni þessari umræðu.