141. löggjafarþing — 65. fundur,  15. jan. 2013.

happdrætti.

477. mál
[17:03]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í fyrsta lagi þá set ég ekki allan happdrættisiðnaðinn, skulum við kalla það, undir sama hatt. Ég geri greinarmun á happdrættum, Happdrætti Háskóla Íslands, SÍBS o.s.frv. annars vegar og spilavélum hins vegar. Ég legg þetta alls ekki að jöfnu. Ég var að lýsa afstöðu minni til spilakassanna og fjárhættuspila almennt og helst mundi ég vilja fá það út úr heiminum. Það er mín skoðun. Ég er hins vegar ekki að reyna að gera það og menn skulu taka orð fyrir því mín nema þeir hafi sérstaka þörf fyrir að snúa út úr og búa til úr þessu eitthvað annað en er á ferðinni.

Framsóknarflokkurinn er núna farinn að tala um einhvern óskapnað í ríkisrekstri og að belgja út ríkisrekstur. Við erum að tala um að færa starf sem nú fer fram innan ráðuneytisins út fyrir ráðuneytið. Á nákvæmlega sama hátt og í útlendingalögunum þar sem við erum að færa úrskurði yfir til sjálfstæðrar nefndar. Þetta er bara tilfærsla á því. Að uppistöðu til erum við að tala um fjármuni sem eiga að koma spilafíklum til góða. Ég er alveg tilbúinn að taka ágæta umræðu með hv. þingmanni um það og hvað það hefur þýtt fyrir margt fólk. Við skulum ekkert gera lítið úr því. Þótt það fari eitthvað örlítið minna í happdrættin og örlítið meira til fólks sem á við spilavanda að stríða, og hann er mjög alvarlegur og hefur komið … (Gripið fram í: Fyrir ríkisstofnun.) Fyrir ríkisstofnun. Þar erum við að tala um agnarsmáar upphæðir, að færa eftirlit sem nú er í innanríkisráðuneytinu út fyrir það hús. Við skulum horfa á starfsemina líka en búa ekki til grýlu úr þessu. Mér finnst dapurlegt og það kemur mér á óvart að þessu skuli vera tekið eins og það er gert. Við erum að stíga agnarsmá skref. Við höfum rætt þetta við happdrættin í landinu, (Forseti hringir.) byggjum þetta á norskri fyrirmynd, forðumst að taka einhver heljarstökk (Forseti hringir.) og reynum að ná góðri samstöðu um það. Ég bið hv. þingmenn sem hafa núna sett þetta í þennan gír að (Forseti hringir.) endurskoða afstöðu sína til þess og skoða málið alla vega með opnum huga.