141. löggjafarþing — 65. fundur,  15. jan. 2013.

happdrætti.

477. mál
[17:10]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. innanríkisráðherra fyrir skilmerkilega ræðu hér í upphafi þessa máls. Ég vil líka þakka honum fyrir þann heiðarleika sem hann sýndi í máli sínu rétt áður þegar hann lýsti því að hann vildi banna þetta allt saman, eins og hann orðaði það, hversu víðtækt sem það kann nú að vera í raun. Í þeim orðum kristallast reyndar sá munur sem er á honum og ýmsum öðrum stjórnmálamönnum, trúlega líka í þessum þingsal, sem aðhyllast forsjárhyggju og vilja banna allt sem hugsanlega er gallað í einhverjum skilningi og svo okkur hinum sem teljum að einstaklingurinn beri ábyrgð á lífi sínu og að það sé siðferðilega rangt að ætla að ríkið og ríkisvaldið og eftirlit ríkisins fóstri einstaklingana frá vöggu til grafar.

Ef marka má athugasemdir við frumvarpið og orð hæstv. innanríkisráðherra er það hins vegar komið til vegna vanda sem menn telja vera fyrir hendi er varðar happdrætti og spilafíkn svokallaða. Ég ætla svo sannarlega ekki að gera lítið úr þeim vanda og viðurkenni að hann er trúlega til staðar. Í athugasemdum með frumvarpinu er vísað til rannsóknar, að vísu bara einnar rannsóknar og það kann að vera að það skorti á rannsóknir á þessu sviði, sem gerð var hér á landi og varðar bæði umfang spilamennsku á Íslandi og þess sem hefur verið skilgreint sem vandi. Ég tel reyndar að nánari upplýsingar úr þessum rannsóknum sem gerðar hafa verið hefðu að ósekju mátt fylgja með.

Það er svo sem athyglisvert að þar kemur fram að rúmlega 76% landsmanna spili peningaspil að minnsta kosti einu sinni á 12 mánaða tímabili og það eru nýjar tölur. Ég tel, án þess að ég hafi upplýsingar um það, að þessar tölur byggist meðal annars á þátttöku landsmanna í hinu svokallaða lottói sem einhverra hluta vegna virðist hafa orðið að einhvers konar fjölskylduspili landsmanna. Mér hefði þess þá heldur þótt fróðlegt að sjá tölur yfir þátttöku Íslendinga á erlendum vefsíðum en til þeirrar spilunar er einungis vísað þannig að slík þátttaka hafi áttfaldast á löngu tímabili og kemur ekkert fram hversu stór hluti landsmanna er talinn er taka þátt í slíku spili. Það hefði verið svolítið upplýsandi fyrir þetta mál ef þessar rannsóknir hefðu verið raktar í frekara máli en gert er.

Gott og vel. Eins og ég segi er vandinn vissulega fyrir hendi og er trúlega mörgum aðilum þungbær, ekki bara fíklum heldur líka aðstandendum eins og komið er inn á í þessu frumvarpi. Ef marka má athugasemdir er markmiðið með frumvarpinu að hindra frekari útbreiðslu spilafíknar. Það er meginmarkmið frumvarpsins. Ég kem kannski að því síðar. Hæstv. innanríkisráðherra upplýsti reyndar í máli sínu áðan að markmiðið kynni nú öllu frekar vera að draga spilavandann inn til landsins eða spilamennskuna inn til landsins en ef ég leyfi mér að fjalla einungis um athugasemdir við frumvarpið sjálft er markmiðið að hindra frekari útbreiðslu spilafíknarinnar.

Þess vegna velti ég því fyrir mér hvort þetta frumvarp sem slíkt hafi í för með sér minna framboð af spilamöguleikum. Ég velti því líka fyrir mér hvort raunhæft sé að koma í veg fyrir erlenda netspilun með íhlutun í greiðslumiðlun eins og þetta frumvarp gerir ráð fyrir. Því er reyndar svarað í frumvarpinu sjálfu. Þar kemur fram að þessar tillögur, þær ráðstafanir sem lagðar eru til með þessu frumvarpi, séu ekki til þess fallnar að koma alfarið í veg fyrir áframhaldandi fjárhættuspil á netinu. Um það geta sú sem hér stendur og hæstv. innanríkisráðherra verið sammála, frumvarpið er í sjálfu sér ekki til þess fallið að draga nokkuð úr spilamennsku. Af þeirri ástæðu tel ég ansi viðurhlutamikið að leggja til að nýrri stofnun sé komið á laggirnar með þetta markmið að leiðarljósi.

Mig langar að fjalla sérstaklega um greiðslumiðlunina. Í frumvarpinu er lagt bann við greiðsluþjónustu, sem er í rauninni greiðslumiðlun kreditkortafyrirtækja, í þeim tilvikum þegar um er að ræða erlend fjárhættuspil sem ekki hafa fengið leyfi hér á landi. Ég velti fyrir mér hvernig greiðslukortafyrirtækjum eða þeim fyrirtækjum sem annast greiðslumiðlun er ætlað að taka þátt í þessari krossferð hæstv. innanríkisráðherra eða baráttu hans gegn spilavandanum. Í 6. gr. frumvarpsins er vísað til þess að ráðherra setji nánari ákvæði í reglugerð um umfang og framkvæmd þessa greiðsluþjónustubanns sem lagt er til. Ég hefði talið eðlilegt að einhvers konar útlistun á slíkum reglum kæmu fram í athugasemdum við þetta frumvarp því ég fæ ekki með nokkru móti séð hvernig greiðslukortafyrirtækjum er ætlað að sinna því greiðsluþjónustubanni. Það er kannski mögulegt fræðilega að fylgjast með netnotkun manna og kreditkortanotkun en er það þetta sem frumvarpið boðar? Boðar það yfirgripsmikið eftirlit með internet- og kreditkortanotkun allra Íslendinga?

Í framhaldi af því velti ég fyrir mér kostnaðinum við þetta eftirliti. Á það hefur verið bent að tiltekin íslensk félög muni leggja af mörkum að minnsta kosti 50 millj. kr. og þar með eru þessi góðgerðarfélög, DAS, Happdrætti Háskóla Íslands, SÍBS, orðin tekjulind fyrir ríkissjóð. Það liggur nefnilega ekki fyrir og er ekkert fjallað um það í frumvarpinu hver kostnaðurinn af eftirlitinu er, hver kostnaðurinn af Happdrættisstofu er. Vissulega er einhver rekstrarkostnaður áætlaður en hvað með eftirstöðvarnar? Það er 25–30 millj. sem stofan á að hafa til ráðstöfunar. SÍBS, DAS, Happdrætti Háskóla Íslands og önnur góðgerðarfélög sem eru sett undir þetta frumvarp eru orðin tekjulind ríkissjóðs.

Virðulegi forseti. Hvað með greiðslukortafyrirtækin? Hver ber kostnaðinn af eftirlitinu sem þeim er ætlað að sinna? Hinu yfirgripsmikla eftirliti með netnotkun og kortanotkun allra Íslendinga? Eitthvað hlýtur það að kosta. Hugsanlega er það tæknilega og fræðilega mögulegt, ég ætla nú ekki að fullyrða það, að fylgjast svona með allri notkun en eitthvað hlýtur það að kosta. Er ekki gert ráð fyrir að kreditkortafyrirtækin fái greitt fyrir þetta eftirlit á einhvern hátt?

Ég velti því fyrir mér hver vandinn er nákvæmlega. Hver er hinn svokallaði spilavandi á Íslandi? Að hvaða þáttum þessa vanda lýtur þetta frumvarp? Hvernig mun til dæmis aukið eftirlit með Happdrætti Háskóla Íslands, SÍBS, DAS og einhverjum öðrum, draga úr spilavandanum sem slíkum? Eða er markmið þessa frumvarps ekki það sem greint er frá í athugasemdum við það heldur einungis og nákvæmlega það sem hæstv. innanríkisráðherra lýsti hér áðan, að flytja spilamennskuna inn til Íslands?

Að mínu mati er fráleitt að frumvarpið dragi úr spilavanda Íslendinga sem er mjög trúlega til staðar að einhverju leyti. Nú kann að vera að ég hafi misst af í umræðum rétt áðan en hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir spurði að því hvort lottóið svokallaða félli undir þetta. Var búið að svara því? (ÞKG: Já, það gerir það.) Ágætt, þá fellur það undir það í flokk með SÍBS og DAS sem verða framvegis tekjulind fyrir ríkissjóð.

Virðulegi forseti. Að lokum verð ég nú að segja að það var kannski ekkert klókt af hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni að nefna hér sem varnaðarorð þá staðreynd að ríkisstofnunum hættir til að stækka og verða eilífar og beina þeim orðum til hæstv. innanríkisráðherra, fyrrverandi formanns BSRB og eins af þeim stjórnmálamönnum sem einmitt, leyfi ég mér að ætla, sér ekkert athugavert við það að fjölga ríkisstofnunum eða stækka þær til framtíðar.