141. löggjafarþing — 65. fundur,  15. jan. 2013.

happdrætti.

477. mál
[17:26]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. innanríkisráðherra svaraði ekki neinum af þeim vangaveltum sem ég hafði uppi í ræðu minni áðan og ég get svo sem beðið spennt eftir frekari meðferð þessa máls og umræðu um það á Alþingi.

Ég velti því hins vegar fyrir mér hvort hæstv. innanríkisráðherra gæti þó ekki svarað mér því hvort hann sjái ekki tiltækar aðrar vægari leiðir en að stofna nýtt embætti utan um þetta, einkum og sér í lagi í ljósi þess eftirlits sem boðað er með kortanotkun Íslendinga. Í framhaldinu þætti mér líka gott að vita hvort hæstv. innanríkisráðherra hafi einhver svör við því hvort góðgerðafélögin sem starfa hér á Íslandi hafi brugðist við þessum spilavanda og þá hvernig. Hafa þau brugðist með neikvæðum hætti eða seint og illa við þeim vanda sem menn hafa talið að sé hér til staðar og telur hæstv. ráðherra að nú sé svo komið að það sé fyrirséð að þessi ágætu félög ætli sér að hunsa þennan vanda?