141. löggjafarþing — 65. fundur,  15. jan. 2013.

happdrætti.

477. mál
[17:47]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er þetta með peningaupphæðirnar, 50 milljónir nefnir hv. þingmaður að færu í þessa starfsemi, eftirlits- og aðhaldsstarf og forvarnastarf. Finnst hv. þingmanni mikið eða lítið að verja 25–30 milljónum í forvarnastarf vegna spilafíknar? Það væri gaman og áhugavert að heyra það.

Síðan er þetta tal um að leika sér á netinu. Það er ákveðin tilhneiging alls staðar sem er öll í sömu átt. Það er eins og þróun á þessu sviði gerist alls staðar eins og hún ræðst nokkuð af tækninni. Þess vegna hefur það gerst alls staðar, ekki bara hér á landi og ekki bara í Noregi. Alls staðar hefur spilamennska verið að færast yfir á netið. Þeir sem hafa áhyggjur af spilafíkn, ekki síst ungs fólki sem ánetjast, vilja reisa við þessu einhverjar skorður. Norðmenn hafa gert þetta og fundið leið í samstarfi við kreditkortafyrirtækin sem loka á tiltekna kóða þar sem viðskipti af þessu tagi fara fram.

Varðandi EES eru Norðmenn búnir að gaumgæfa rækilega og fara í gegnum það ferli og við erum einfaldlega að feta í nákvæmlega sömu fótspor, fara slóðina þeirra. Ástæðan fyrir því að ég nefni þessar upphæðir er áætlanir frá kreditkortafyrirtækinu. Ég sá aldrei þessa útreikninga, ég treysti því einfaldlega að þau segðu ekki ósatt um ágiskanir sínar í þessum efnum. Þegar við berum þetta síðan saman við samsvarandi upphæðir annars staðar á Norðurlöndunum er þetta hlutfallslega trúverðugt. Þess vegna er þetta sett fram sem ágiskun, ekki vísindalegar stærðir (Forseti hringir.) á nokkurn hátt, til að við áttum okkur á því hvað þarna er að gerast.

Hv. þingmaður nefndi sérstaklega að það væri verið að taka peninga af Íslenskri getspá. Ætli við séum ekki að tala um (Forseti hringir.) 10% af auglýsingakostnaði hennar sem við setjum þá að hluta til í forvarnastarf?