141. löggjafarþing — 65. fundur,  15. jan. 2013.

happdrætti.

477. mál
[18:11]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er miklu meira en velkomið og ég vona að Alþingi geri það líka. Ég er ekki að tala fyrir ritskoðun á netinu. Það hafa ýmsar leiðir verið ræddar í þessu efni og hv. þingmaður vísaði til fyrirkomulags í Danmörku þar sem lokað er fyrir tölvur með tilvísan í IP-tölur. Það er ekki verið að fara þá leið, það er ekki verið að leggja það til. Við erum að fara miklu vægari leið sem byggir á norskri fyrirmynd, en eins og ég kom inn á áðan þá gerum við einmitt ekki ráð fyrir því að hægt sé að loka fyrir öll þessi viðskipti. Það er ekki það sem verður reynt, það er ekki það sem á að reyna að gera. Í Noregi gerir sér enginn grillur um að unnt sé að loka fyrir allt fjárhættuspil á netinu, en það er hægt að takmarka það með þessum einfalda hætti án þess að menn séu á nokkurn hátt að stunda ritskoðun. Það er nokkuð sem Norðmenn eru meðvitaðir um. Við erum það líka og við teljum að Danir t.d. hafi gengið of langt með tilvísan í það sem ég nefndi áðan.

Hins vegar er ég ósammála hv. þingmanni þegar sagt er að netspilun eða óheft fjárhættuspil á netinu geti ekki stefnt andlegri heilsu einstaklinga í hættu eða að það ógni ekki siðgæði. Þarna erum við þá bara ósammála, sjálfum finnst mér fjáröflun í gegnum óbeisluð fjárhættuspil á netinu eða annars staðar ekki vera siðleg. Mér finnst ekkert að því að vilja koma böndum á það og vernda þannig fólk sem er ekki sjálfrátt gerða sinna. (BirgJ: Hvað með Eve Online?) Hvað með? (BirgJ: Eve Online. Þar setur fólk fullt af peningum í að byggja upp sinn heim.) Ég er að einskorða mig við fjárhættuspil í fjáröflunarskyni þar sem iðulega er gert út á fólk sem er ekki sjálfrátt gerða sinna. Það er það sem við erum að reyna að taka á (Forseti hringir.) og við erum að reyna að gera það á afmarkaðan hátt án þess að ógna þeim gildum sem hv. þingmaður bendir réttilega á og ég vil einnig í heiðri hafa.