141. löggjafarþing — 65. fundur,  15. jan. 2013.

landslénið .is.

421. mál
[18:29]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Hæstv. ráðherra náði ekki að svara spurningu minni sem snýr að því af hverju lénaskatturinn sé settur á, þessi 3,5%, af hverju megi ekki bara vera sá kostnaður sem er af eftirlitsstarfsemi Póst- og fjarskiptastofnunar, að sýna þurfi fram á kostnaðinn til að geta rukkað fyrir þjónustuna sem stofnunin veitir.

Ég hræðist einmitt svar hæstv. ráðherra við tengslum við Ísland. Ég átta mig ekki alveg á því. Menn vilja jú hafa mikinn sveigjanleika en það er akkúrat það sem maður hræðist. Í fréttinni sem ég vitnaði í var það haft eftir framkvæmdastjóra ISNIC, Jens Pétri Jensen, og bent á tvö fyrirtæki, Mercedes Benz og microsoft.is. Ég skil ekki af hverju þetta þarf að vera með þessum hætti og hvernig eigi að meta það. Eins eru mörg lén skráð með erlendum nöfnum og hann varar við að aðilar reyni að ná þessum nöfnum eins og reynslan hefur sýnt til selja öðrum sem nota þau jafnvel í annarlegum tilgangi.

Síðan langar mig að spyrja hæstv. ráðherra um það sem ég kom að í fyrra andsvari, að Póst- og fjarskiptastofnun fari með eftirlit með framkvæmdinni og starfsemi lénhafanna. Hvað þýðir þetta ákvæði í raun og veru? Hvernig er þetta í framkvæmd? Hvernig sér hæstv. ráðherra þetta í framkvæmd? Eftirlit með starfseminni eftir atvikum, hvernig á að útskýra það? Þetta er ekki í greinargerðinni með útskýringunum á lagagreininni sjálfri þannig að mig langar að biðja hæstv. ráðherra að fara aðeins betur yfir það.