141. löggjafarþing — 65. fundur,  15. jan. 2013.

landslénið .is.

421. mál
[18:37]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er ekki meiningin að fjarlægja þá reynslu sem er fyrir hendi. Við erum að tala um umhverfi sem er í stöðugri þróun og Póst- og fjarskiptastofnun er hluti af þeirri þróun og sækir upplýsingar og fróðleik frá útlöndum í samstarfi við aðra aðila, m.a. suður í Brussel í Evrópusambandinu, menn horfa til Evrópusamstarfs. Ef einhver heldur að ég sé andvígur Evrópusamstarfi er það mikill misskilningur, þó að ég vilji ekki ganga í Evrópusambandið.

Það er ekki meiningin að hafa eftirlit með efni, þetta er ekki ritskoðun af neinu tagi. En varðandi hitt, að fyrirbyggja hættur sem steðja að okkur þegar um er að ræða einkafyrirtæki sem hefur ríkra samfélagslegra sjónarmiða að gæta — ég er alveg sammála hv. þingmanni að heppilegast hefði verið að hafa ISNIC í samfélagseign, það er bara of dýrt að ná því yfir þannig. Þá reynum við að leysa málin með löggjöf og m.a. að koma í veg fyrir að of miklir fjármunir af hagnaði séu teknir út úr starfseminni. Þess eru dæmi í Finnlandi að fyrirtæki fóru á hausinn þar sem þessi starfsemi var einkavædd og það vilja menn ekki að gerist.

Við leituðum fyrirmynda varðandi skattlagninguna í annarri starfsemi, m.a. fjarskiptastarfsemi. Við erum að leita eftir því af mikilli alvöru að skattlagningin eða gjaldtakan verði sanngjörn, hún verði hvorki of mikil né of lítil, vegna þess að markmiðið hjá þeim sem setja frumvarpið fram er að tryggja í senn hina samfélagslegu hagsmuni og svo hagsmuni þessa fyrirtækis, að sé rekið þannig að því séu búin góð lífsskilyrði en án þess að út úr því (Forseti hringir.) sé tekinn óhóflegur arður. Það reynum við að hnýta inn í frumvarpið.