141. löggjafarþing — 66. fundur,  16. jan. 2013.

störf þingsins.

[15:13]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Mig langar til að vekja athygli á svari sem var að berast þinginu frá velferðarráðherra við fyrirspurn frá mér sem snýr að því hvað ríkið hefur sparað sér í almannatryggingakerfinu með því að hafa aftengt 69. gr. laga um almannatryggingar sem tók gildi 1. júlí 2009. Það varð mjög mikil gagnrýni á það þegar ríkisstjórnin fór fram með það að aftengja örorkubætur og ellilífeyri til bótaþega og hefur verið á reiki hvað þessi upphæð hefur verið há. Þarna fór ríkisstjórnin beint inn í lög um almannatryggingar og skerti grunnlífeyri þessara bótahópa. Það hefur aldrei áður gerst á Íslandi að farið hafi verið beint inn í grunnbæturnar með þeim miklu skerðingum sem þetta leiddi af sér.

Svo langt er nú gengið í þessum sparnaði ríkisins með þessum aðgerðum að fólk greiðir krónu á móti krónu og nú standa sumir þessara hópa sem þessi lög bitna mest á frammi fyrir því að aðili sem er búinn að vinna á almenna vinnumarkaðinum eða hjá hinu opinbera lendir í svo miklum skerðingum að hann fær svipaðar upphæðir útborgaðar og sá sem hefur aldrei greitt í lífeyrissjóð. Og þessi lög eru enn í gildi þannig að ríkið er enn að afla tekna hjá þessum hópum.

Ég vek athygli á því að velferðarráðuneytið hefur viðurkennt að sparnaður ríkisins af þessari lagasetningu hafi á árabilinu 1. júní 2009 til ársins 2012 verið 3,5 milljarðar kr. af þessum hópum. Þarna er (Forseti hringir.) hoggið í hópa sem eiga það ekki skilið.