141. löggjafarþing — 66. fundur,  16. jan. 2013.

störf þingsins.

[15:18]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég ætla að ræða um Landsvirkjun, ekki sölu hennar eða neitt slíkt enda er það guðlast, heldur um áhættuna af rekstrinum. Það er talið að Landsvirkjun þurfi núna aukið áhættufé. Ég undirstrika orðið áhætta í því.

Í öllum rekstri er áhætta og Landsvirkjun gæti þess vegna farið á hausinn. Það er náttúrlega guðlast að segja þetta því að margir eru þeirrar heilögu trúar að Landsvirkjun sé einhver gullgæs sem geti ekki annað en verpt gulleggjum. Þeir gleyma því að gullgæsin gæti dáið.

Eigið fé Landsvirkjunar er 206 milljarðar og hún er í eigu ríkisins. Lánveitingar með ríkisábyrgð eru um 300 milljarðar. Þarna eru 500–600 milljarðar undir í áhættu. Eins og í öllum rekstri getur þetta tapast. Menn þurfa að hafa það í huga.

Svo ég tali um það sem aldrei gerist, einu sinni var talað um að Samband íslenskra samvinnufélaga færi aldrei á hausinn. Það fékk meira að segja sterkari lán en ríkið. (Gripið fram í.) Hvar er það í dag? Ekki mundi ég vilja eiga það. (Gripið fram í.) Síðan var talað um að Íbúðalánasjóður stæði vel. Ég man þá tíð að ég varaði við því, það var árið 2004, að hann gæti farið á hausinn ef raunávöxtunarkrafan færi niður í 2% sem væri vel mögulegt. Þá sögðu allir: Nei, nei, nei, ávöxtunarkrafan fer ekki niður í 2%. Hún er 1,9% núna.

Svo minni ég á Orkuveitu Reykjavíkur sem situr á auðlind, selur rafmagn og er í miklum vandræðum. Þar gerði stjórnin mistök, segja menn. Stjórn Landsvirkjunar gerir að sjálfsögðu ekki mistök enda er hún skipuð af fjármálaráðherra. (Forseti hringir.)